Körfubolti

Risa­leikur Ant­hony Davis skilaði Lakers fyrsta bikar­meistara­titlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leikmenn Los Angeles Lakers fögnuðu fyrsta deildarbikarmeistaratitli í sögu NBA-deildarinnar í nótt.
Leikmenn Los Angeles Lakers fögnuðu fyrsta deildarbikarmeistaratitli í sögu NBA-deildarinnar í nótt. Ethan Miller/Getty Images

Anthony Davis átti sannkallaðan stórleik er Los Angeles Lakers varð fyrsta liðið til að vinna deildarbikarmeistaratitilinn í sögu NBA-deildarinnar.

Lakers og Indiana Pacers áttust við í úrslitum deildarbikarsins í Las Vegas í nótt og voru það leikmenn Los Angeles Lakers sem fögnuðu að lokum 14 stiga sigri 123-109.

Lakers hafði yfirhöndina frá upphafi leiks og leiddu með fimm stigum að loknum fyrsta leikhluta. Munurinn hélst sá sami út hálfleikinn og Lakers fór með fimm stiga forskot inn í hálfleikinn, staðan 65-60.

Liðið jók svo forskot sitt jafnt og þétt í síðari hálfleik og vann að lokum sögulegan 14 stiga sigur, 123-109. Anthony Davis átti eins og áður segir risaleik fyrir Lakers og skoraði 41 stig fyrir liðið. Hann tók einnig 20 fráköst, gaf fimm stoðsendingar og varði fjögur skot. Þeir Tyrese Haliburton og Bennedict Mathurin voru atkvæðamestir í liði Pacers með 20 stig hvor.

LeBron valinn verðmætastur

Þá sýndi hinn margreyndi LeBron James að hann er enn í fullu fjöri. Þessi 38 ára gamli leikmaður skilaði 24 stigum, 11 fráköstum og fjórum stoðsendingum í leik næturinnar og var að lokum útnefndur mikilvægasti leikmaður mótsins, eða MVP (e. Most Valuable Player).

Hann skilaði að meðaltali 26,2 stigum í leikjunum sjö í keppninni, átta fráköstum og 7,6 stoðsendingum.

„Það er alltaf hægt að bæta einhver met, en það að vera fyrstur til að gera eitthvað er eitthvað sem verður aldrei bætt,“ sagði LeBron James eftir leikinn í nótt.

„Við erum fyrstu bikarmeistararnir og það verður aldrei toppað. Það er frábært að geta gert þetta með svona sögufrægu liði og enn betra að gera þetta með svona frábærum, fyndnum, ákveðnum og metnaðarfullum samherjum.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×