Innlent

Krist­rún leggur ekki á­herslu á Evrópu­sam­bandið

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kristrún að hlusta á Sigurjón Erlingsson í ræðustól á fundinum á Selfossi.
Kristrún að hlusta á Sigurjón Erlingsson í ræðustól á fundinum á Selfossi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Formaður Samfylkingarinnar segir það skipta meira máli að komast til valda í málaflokkum, sem er 70 til 80 prósent sátt um frekar en að keyra á málaflokka, sem kljúfa þjóðina eins og að ganga í Evrópusambandið.

Eins og fram hefur komið er Samfylkingin á miklu flugi í landsstjórnmálunum enda sýna kannanir að hún sé langstærsti flokkur landsins með um 28% atkvæða yrði kosið nú. Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins er hlynnt inngöngu í Evrópusambandið en setur það alls ekki, sem forgangsmál ef marka má orð hennar á opnum fundi Samfylkingarinnar í Árborg, sem haldin var á Selfossi.

„Ég er hlynnt sjálf Evrópusambands inngöngu en mér finnst skipta meira máli að við komumst til valda og framkvæmum í málaflokkum, sem er kannski 70 til 80 prósent sátt um frekar en að keyra á málaflokka, sem kljúfa þjóðina. Og ég veit að það finnst ekki öllum auðvelt að heyra þetta en mér finnst bara mín ábyrgð vera meiri en svo ég velji bara þá málaflokka, sem ég vil eða flokkurinn vill í smáatriðum, þetta er enn þá á stefnuskrá flokksins, þetta er enn þá markmið en ég væri líka að lofa upp í ermina á mér ef ég væri að halda því fram að til dæmis væri fram undan í stjórnarsamstarfi þar sem væri meirihluti fyrir þessu, ég er ekkert endilega viss um að svo sé,“ sagði Kristrún.

Kristrún bætti svo við að það væru margir nýir jafnaðarmenn gengnir til liðs við Samfylkinguna en séu efasemdarmenn um Evrópusambandið og hún segist virða þá skoðun.

„Og það er ekki þannig að við göngum inn í Evrópusambandið og tökum upp evru og þá lækki bara hér vextir og allt verði þægilegt, það virkar ekki þannig,“ sagði hún á fundinum á Selfossi.

„Ég er hlynnt sjálf Evrópusambands inngöngu en mér finnst skipta meira máli að við komumst til valda og framkvæmum í málaflokkum, sem er kannski 70 til 80 prósent sátt um frekar en að keyra á málaflokka, sem kljúfa þjóðina“, sagði Kristrún meðal annars á fundinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×