Fótbolti

Í­huga að halda HM í Sádi-Arabíu um sumar þrátt fyrir kæfandi hita

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Sádi-Arabíu tollera íþróttamálaráðherra landsins, prins Abdulaziz bin Turki Al-Faisal, eftir sigurinn fræga á Argentínu á HM í Katar í fyrra.
Leikmenn Sádi-Arabíu tollera íþróttamálaráðherra landsins, prins Abdulaziz bin Turki Al-Faisal, eftir sigurinn fræga á Argentínu á HM í Katar í fyrra. getty/Shaun Botterill

Heimsmeistaramótið 2034 gæti farið fram um sumar þrátt fyrir að hitinn í Sádi-Arabíu geti farið upp í allt að fimmtíu gráður á þeim árstíma.

Sádi-Arabía heldur HM í fyrsta sinn 2034. Það verður annað heimsmeistaramótið sem fer fram í Miðausturlöndum. Í fyrra fór HM fram í Katar en mótið var haldið í nóvember og desember þar sem hitinn yfir sumartímann þótti of mikill til að æskilegt væri að spila þá.

Á sumrin er oft um fjörutíu stiga hiti í Sádi-Arabíu og hann getur farið í allt að fimmtíu gráður. Þrátt fyrir það er ekki útilokað að HM 2034 fari fram yfir sumartímann.

„Ef ég á að vera heiðarlegur veit ég það ekki,“ sagði íþróttamálaráðherra Sádi-Arabíu, prins Abdulaziz bin Turki Al Faisal, aðspurður hvort HM 2034 væri fram að sumri eða vetri til. 

„Við erum að skoða báða möguleika til að sjá hvenær best er að halda HM. Vonandi komumst við að því og við munum leggja hart að okkur til að sjá til þess að þetta verði besta heimsmeistaramót sem hefur verið haldið. Af hverju ekki að sjá hvaða möguleikar eru að gera þetta um sumar? Það skiptir okkur ekki öllu máli svo lengi sem við bjóðum upp á besta mögulega andrúmsloft fyrir svona atburð.“

Sádi-Arabar gætu farið sömu leið og Katarar og notað sérstakt kælikerfi á leikvöngunum sem spilað er á. Það ku samt ekki vera sérstaklega umhverfisvæn leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×