Fótbolti

Boltinn á EM muni stytta tímann sem VAR tekur í á­kvarðanir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Boltinn sem notaður verður á EM næsta sumar verður útbúinn nýjustu tækni.
Boltinn sem notaður verður á EM næsta sumar verður útbúinn nýjustu tækni. Boris Streubel - UEFA/UEFA via Getty Images

Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, segir að boltinn sem notaður verður á EM í Þýskalandi næsta sumar muni hjálpa til við að stytta tímann sem það tekur VAR að taka ákvarðanir um rangstöður og hendi.

Boltinn, sem ber heitið Fussballliebe, verður framleiddur af Adidas og mun hann nota nýjustu tækni til að senda gögn til dómara leikjanna í rauntíma.

UEFA segir að boltinn muni veita „fordæmalausa innsýn í hverja hreyfingu boltans sem muni aðstoða VAR-dómara við ákvarðanatöku sína.“

Tæknin sem um ræðir segir til um hvenær boltinn er snertur, en þó mun boltinn ekki vita hvaða líkamshluti það er sem snertir hann. VAR-dómarar munu hins vegar geta nýtt tæknina í bland við myndbandsupptökur til að ákvarða hvort dæma eigi hendi inni í teig.

UEFA telur að tæknin muni flýta fyrir ákvarðanatöku dómara, sem og aðstoða við að fá nákvæmari niðurstöðu í rangstöðudóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×