Handbolti

Stelpurnar okkar byrja á móti Græn­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildigunnur Einarsdóttir og félagar hennar í landsliðinu eru á leiðinni í Forsetabikarinn þar sem þær eru sigurstranglegar.
Hildigunnur Einarsdóttir og félagar hennar í landsliðinu eru á leiðinni í Forsetabikarinn þar sem þær eru sigurstranglegar. AP/Beate Oma Dahle

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta er á leið í Forsetabikarinn á heimsmeistaramótinu í Noregi, Danmörku og Svíþjóð en stelpurnar misstu grátlega af sæti í milliriðlinum í gær.

Tveir af þremur mótherjum íslenska liðsins í riðli þeirra í Forsetabikarnum hafa verið staðfestir og það er líka lítil óvissa um hver sá þriðji verður.

Fyrsti leikurinn verður á móti Grænlandi á fimmtudaginn og svo mætir liðið Paragvæ á laugardaginn. Það er enn ekki staðfest hver verður mótherjinn í þriðja leiknum. Allir leikirnir fara fram í Frederikshavn í Danmörku.

Það sæti fær liðið sem endar í neðsta sætinu í A-riðlinum. Senegal og Kína mætast í dag í hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðlinum og það lið sem tapar þeirri baráttu dettur inn í riðil íslensku stelpnanna. Það bendir þó allt til þess að það verði Kína sem hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum með samtals 38 marka mun.

Kína tapaði 36-24 á móti Svíþjóð og 39-13 á móti Króatíu. Senegal náði hins vegar 22-22 jafntefli á móti Króatíu og er því mun sigurstranglegri í þessum leik í dag.

Paragvæ tapaði öllum þremur leikjum sínum með samtals 41 marki en liðið tapaði 35-12 á móti Ungverjalandi, 41-26 á móti Svartfjallalandi og 26-23 á móti Kamerún.

Grænland tapaði öllum þremur leikjum sínum með samtals 63 mörkum en liðið tapaði 43-11 á móti Noregi, 27-16 á móti Suður-Kóreu og 43-23 á móti Austurríki.

Íslenska liðið er því það langsigurstranglegasta í riðlinum og ætti því að komast nokkuð auðveldlega í úrslitaleik Forsetabikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×