Erlent

Þrír ísraelskir gíslar taldir af eftir sprengingar Ísraelshers

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vopnahlé hefur staðið yfir á Gasasvæðinu síðan á föstudagsmorgun.
Vopnahlé hefur staðið yfir á Gasasvæðinu síðan á föstudagsmorgun. AP

Samningaviðræður Ísraels og Hamas um framlengingu vopnahlés leystust upp í dag þegar Hamas tilkynnti að fjölskylda ísraelskra gísla hafi látið lífið í sprengingu Ísraelshers á Gasaströndina í morgun. Tíu mánaða barn sé þar á meðal.

Skömmu áður en þrjátíu ísraelskum gíslum átti að vera sleppt úr haldi tilkynnti Hamas að þrír ísraelskir gíslar hafi látist í loftárás Ísraelshers í dag. Tíu mánaða gamalt barn, fjögurra ára gamall bróðir barnsins og móðir þeirra. Faðir barnanna var að auki í haldi Hamas en hans var ekki getið í tilkynningunni.

Ættingjar fjölskyldunnar, sem er virt í Ísrael, sendu frá sér sérstaka áskorun á hendur Hamas að fjölskyldan yrði látin laus eftir að hún var fjarlægð úr hópi þeirra gísla sem voru látnir lausir á þriðjudag. 

Ísraelskur embættismaður hefur nú sagt að ómögulegt sé að framlengja vopnahléið, sem á að klárast á morgun, án þess að Hamas fallist á að frelsa allar konur og öll börn sem eru í þeirra haldi. Samtökin séu enn með það mörg börn og það margar konur í haldi að hægt yrði að framlengja vopnahléið um tvo til þrjá daga. 

Fjórðu fangaskipti Ísraels og Hamas áttu sér stað í gærnótt þegar Ísraelsmenn létu 33 Palestínumenn lausa gegn ellefu Ísraelsmönnum ú haldi Hamas. 

Fjölskyldur ísraelskra gísla sem áttu að losna úr haldi Hamas seinna í dag höfðu þegar verið látnar vita af fyrirhugaðri frelsun þeirra en ekki er ljóst hvort þau skipti fari fram í ljósi tilkynningar Hamas. Meðal þeirra gísla sem láta átti lausa í dag voru fimmtán konur og fimmtán börn.

Hamas hafa nú látið sextíu ísraelska gísla lausa eftir að samið var um vopnahlé. Á sama tíma hefur Ísraelsher látið 180 Palestínumenn lausa, allt konur og börn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×