Innlent

Vilja ekki breyta nöfnum ráðs og sviðs

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skúli Helgason, fulltrúi Samfylkingarinnar í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði, og Kjartan Magnússon, annar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði.
Skúli Helgason, fulltrúi Samfylkingarinnar í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði, og Kjartan Magnússon, annar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði. Vísir/Vilhelm/Sjálfstæðisflokkurinn

Meirihlutinn í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar ætlar ekki að breyta nafngift eins ráðs og eins sviðs innan borgarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn segir það merki um að menningarlíf sé ofar í huga nefndarmanna en íþróttir. 

Nýlega lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði fram tillögu um að breyta nafni ráðsins, sem og nafni Menningar- og íþróttasviðs. Vildu fulltrúarnir að láta stafrófsröð ráða röð málaflokka. 

„Með því að láta stafrófsröð ráða í heitinu er lögð áhersla á að þessir mikilvægu málaflokkar séu jafnréttháir í starfsemi Reykjavíkurborgar,“ segir í bókun frá fundi ráðsins. 

Fulltrúar meirihlutans auk Vinstri grænna höfnuðu þó þessari tillögu. Í þeirra bókun segir að jafnvægi sé á milli menningar og íþrótta í starfsemi bæði ráðsins og sviðsins. Þá sé það ekki venjan að heiti sviða og ráða séu í stafrófsröð, samanber skóla- og frístundasvið, fjármála- og áhættustýringarsvið og umhverfis- og skipulagssvið.

„Ekki er þörf er á því að breyta nafni sviðsins af þeim sökum eða öðrum, þvert á móti gæti nafnabreyting nú sent röng skilaboð um aukið vægi íþrótta á kostnað menningar nú þegar sviðið hefur borið nafn menningar- og íþróttasviðs allt þetta ár,“ segir í bókun meirihlutans. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja það hins vegar vera sem svo að í þeim tilvikum sem heiti sviða og ráða eru ekki í stafrófsröð sé það vegna pólitískra ákvarðana um mikilvægi viðkomandi málaflokka. 

„Þannig var ákveðið að hafa umhverfi á undan skipulagi í heiti þess ráðs og sviðs og hið sama gildir einnig um skóla- og frístundaráð og fjármála- og áhættustýringarsvið. Ekki verður því annað séð en að fulltrúar núverandi meirihluti menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs kjósi að haga nafngift nýs ráðs og sviðs eftir því hvor málaflokkurinn er mikilvægari í huga þeirra,“ segir í þeirra bókun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×