Fótbolti

Mourinho: Ancelotti væri galinn að yfir­gefa Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Carlo Ancelotti og José Mourinho þegar þeir voru að stýra liðum Everton og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni.
 Carlo Ancelotti og José Mourinho þegar þeir voru að stýra liðum Everton og Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Joe Prior

José Mourinho hefur ráðlagt Carlo Ancelotti að yfirgefa ekki Real Madrid og er á því að það væri hreinlega galið hjá Ítalanum að hætta með spænska stórliðið á þessum tímapunkti.

Forseti brasilíska knattspyrnusambandsins hélt því fram í júlí að Ancelotti myndi stýra landsliði Brasilíu í Copa America næsta sumar en engir samningar hafa þó verið undirritaðir um slíkt. Ancelotti hefur verið orðaður lengi við brasilíska landsliðið.

Mourinho ræddi stöðu Ancelotti í viðtali við ítalska fjölmiðilinn TG1.

„Ég held að aðeins vitfirringur myndi yfirgefa Real Madrid þegar félagið vill enn halda þér,“ sagði José Mourinho.

„Ég held að um leið og hann fær skilaboðin frá Florentino [Perez, forseti Madrid] þá muni Carlo ákveða að vera áfram. Hann er fullkominn fyrir Real Madrid og Real Madrid er fullkomið fyrir hann,“ sagði Mourinho.

Mourinho talaði jafnframt um að hann væri eini vitfirringurinn sem gæti tekið svona ákvörðun.

Mourinho hætti með Real Madrid liðið eftir 2012-13 tímabilið og tók síðan við Chelsea. Portúgalinn segist hafa þá haft stuðning Perez um að halda áfram með liðið. Liðinu hafði þó gengið illa tímabilið á undan og það kom fáum á óvart að portúgalski stjórinn færi.

Mourinho er nú með lið Roma á Ítalíu en hann hefur verið orðaður við lið í Sádi-Arabíu. Hann segist þó ekki vera á leiðinni þangað strax.

„Ef ég segi alveg eins og er þá tel ég víst að ég fari einn daginn til Sádi-Arabíu. Þegar ég segi einn daginn þá er ég samt ekki að tala um daginn í dag eða á morgun,“ sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×