Erlent

Dæmdur fyrir að af­höfða mann með flug­vél

Samúel Karl Ólason skrifar
Menn í svifbúningum falla ekki til jarðar eins og fólk í hefðbundnu fallhlífarstökki heldur geta þeir svifið um, eins og nafn búninganna gefur til kynna, og falla mun hægar til jarðar.
Menn í svifbúningum falla ekki til jarðar eins og fólk í hefðbundnu fallhlífarstökki heldur geta þeir svifið um, eins og nafn búninganna gefur til kynna, og falla mun hægar til jarðar. Getty

Franskur flugmaður hefur verið sakfelldur fyrir að afhöfða fallhlífarstökkvara með flugvélarvæng árið 2018. Flugmaðurinn flaug á fallhlífarstökkvarann, sem hafði skömmu áður stokkið úr þessari sömu flugvél, í um fjögur þúsund metra hæð.

Maðurinn var fundinn sekur um manndráp í morgun og dæmdur til tólf manaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar, samkvæmt frétt Le Parisien.

Atvikið átti sér stað í júlí 2018. Þá fór hinn fjörutíu ára gamli Nicolas Galy um borð í flugvél með fallhlíf og klæddur í svifbúning. Minna en hálfri mínútu eftir að hann og nokkrir aðrir stukku úr flugvélinni lenti hann á væng hennar af svo miklum krafti að höfuð hans fór af búknum.

Alls stukku átta úr flugvélinni í fallhlíf til viðbótar við Galy og annan mann sem voru í svifbúningum.

Menn í svifbúningum falla ekki til jarðar eins og fólk í hefðbundnu fallhlífarstökki heldur geta þeir svifið um, eins og nafn búninganna gefur til kynna, og falla mun hægar til jarðar.

Í áðurnefndri frétt segir að samskiptaleysi hafi leitt til þess að flugmaðurinn lækkaði flugið hratt, um leið og Galy og hinir stukku úr flugvélinni, og stefndi aftur að flugvellinum. Það leiddi til þess að hann flaug á Galy.

Neyðarfallhlíf Galy opnaðist og höfuðlaust lík hans sveif til jarðar.

Fallhlífarskólinn sem flugmaðurinn starfaði við var einnig sektaður um tuttugu þúsund krónur, þar sem flugmaðurinn var ekki með virkt flugleyfi þegar Galy lést.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×