Handbolti

Eyja­menn sigldu fram úr í lokin og Aftur­elding vann nýliðana

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elmar Erlingsson var drjúgur fyrir Eyjamenn í dag og skoraði níu mörk.
Elmar Erlingsson var drjúgur fyrir Eyjamenn í dag og skoraði níu mörk. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV vann nokkuð öruggan sex marka sigur er liðið heimsótti Fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 32-28. Þá vann Afturelding góðan fimm marka sigur gegn nýliðum Víkings, 28-33.

Eyjamenn höfðu yfirhöndina framan af leik er liðið heimsótti Fram og náði fjögurra marka forskoti í stöðunni 7-11 þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður. Heimamenn hleyptu ÍBV þó ekki of langt frá sér og minnkuðu muninn niður í eitt mark fyrir hlé, staðan 17-18 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Jafnræði var með liðunum lengi vel í síðari hálfleik, en þegar um stundarfjórðungur var eftir fóru Eyjamenn þó að síga fram úr. Gestirnir náðu fyrst fimm marka forystu í stöðunni 26-31 þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka og unnu að lokum nokkuð öruggan sex marka sigur, 32-38.

Elmar Erlingsson skoraði níu mörk fyrir ÍBV og þeir Daniel Esteves Vieira og Arnór Viðarsson fimm mörk hvor. Þá átti Petar Jokanivic góðan leik í marki gestanna og varði 16 skot. Reynir Þór Stefánsson var markahæstur með tíu mörk í liði Fram og Ívar Logi Styrmisson kom þar á eftir með sjö.

Þá vann Afturelding góðan útisigur gegn nýliðum Víkings, 28-33. Heimamenn í Víking leiddu stóran hluta fyrri hálfleiksins, en Mosfellingar náðu forystunni og leiddu með einu marki í hléi, 15-16.

Gestirnir létu forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik og náðu mest sex marka forskoti í stöðunni 19-26 áður en liðið kláraði fimm marka sigur, 28-33.

Þorsteinn Leó Gunnarsson fór á kostum í liði Aftureldingar og skoraði tólf mörk úr 16 skotum, en í liði Víkings var Halldór Ingi Óskarsson atkvæðamestur með sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×