Fótbolti

Á­fall fyrir ungu stjörnuna hjá Barcelona og spænska lands­liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gavi Paez heldur sárþjáður um hnéð eftir að hafa meiðst á móti Georgíumönnum í gær.
Gavi Paez heldur sárþjáður um hnéð eftir að hafa meiðst á móti Georgíumönnum í gær. AP/Manu Fernandez

Spænski landsliðsmaðurinn Gavi sleit krossband í leik Spánar og Georgíu í undankeppni EM í gær.

Spánverjar unnu leikinn 3-1 en þeir voru búnir að tryggja sér sæti á EM fyrir meira en mánuði síðan.

Hinn nítján ára gamli miðjumaður verður því lengi frá en hann spilar ekki meira á þessu tímabili og missir væntanlega af Evrópumótinu næsta sumar. Hann hefði líka getað spilað með Spánverjum á Ólympíuleikunum í París en getur því miður einnig afskrifað það.

Spænska knattspyrnusambandið staðfesti meiðslin við spænska fjölmiðla en Gavi á þó eftir að fara í frekari skoðun hjá Barcelona.

Gavi var annar af tveimur leikmönnum spænska liðsins sem hélt sæti sínu milli leikja en landsliðsþjálfarinn Luis de la Fuente gerði níu breytingar á byrjunarliðinu sem vann Kýpur á föstudaginn var.

Gavi meiddist um miðjan fyrri hálfleik eftir samstuð við Georgíumanninn Luka Lochoshvili.

Hann gat haltrað af velli en það var augljóst á svipbrigðunum hjá honum að þetta voru alvarleg hnémeiðsli sem svo kom á daginn.

Spænsku leikmennirnir virtust líka strax gera sér grein fyrir alvarleika meiðslanna en liðsfélagi Gavi hjá Barcelona, Ferran Torres, fagnaði marki sínu sem kom Spáni í 2-1, með því að halda uppi treyju Gavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×