Fótbolti

Barcelona fór illa með erki­fjendurna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aitana Bonmati og Caroline Graham Hansen fagna marki í leiknum í dag.
Aitana Bonmati og Caroline Graham Hansen fagna marki í leiknum í dag. Vísir/Getty

Barcelona vann öruggan 5-0 sigur á Real Madrid þegar liðin mættust í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Barcelona hefur unnið spænsku deildina síðustu fjögur tímabilin en Real Madrid hafnaði í öðru sæti deildarinnar í fyrra. Fyrir leikinn í dag hafði Barcelona unnið sigur í öllum níu leikjum sínum í deildinni til þessa en Real Madrid tapað einum.

Það var engin spurning í leiknum í dag hvort liðið væri sterkara. Aitana Bonmati kom Barcelona yfir strax á 17. mínútu en hún var valin best á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar.

Barcelona lét ekki þar við sitja heldur bætti tveimur mörkum við fyrir lok fyrri hálfleiks. Caroline Graham Hansen skoraði á 43. mínútu og í uppbótartíma var komið að Mariona Caldentey.

Síðari hálfleikur var fremur rólegur lengst af og það var ekki fyrr en í uppbótartíma sem Barcelona rak smiðshöggið. Fyrst skoraði Claudia Pina og Vicky Lopez bætti fimmta markinu við undir lokin.

5-0 sigur staðreynd og afar fátt sem bendir til annars en að Barcelona verði með yfirburði á Spáni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×