Sport

Laug í beinni á hliðar­línunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charissa Thompson er þekkt sjónvarpskona í Bandaríkjunum vegna umfjöllunnar sinnar um NFL deildina.
Charissa Thompson er þekkt sjónvarpskona í Bandaríkjunum vegna umfjöllunnar sinnar um NFL deildina. Getty/Cooper Neill

Bandaríska sjónvarpskonan Charissa Thompson segist stundum hafa farið frjálslega með sannleikann þegar hún starfaði á hliðarlínunni í NFL-leikjum.

Thompson hefur hoppað upp metorðastigann í bandarísku sjónvarpi og er nú umsjónarkona NFL Kickoff þáttarins á Fox sjónvarpsstöðinni. Hún rifjaði upp tíma sinn sem fréttakona á vellinum.

Thompson viðurkenndi það nefnilega í viðtali í hlaðvarpsþættinum Pardon My Take að hafa stundum logið í beinni á hliðarlínunni.

Það er hlutverk fréttamanna á hliðarlínunni að gefa áhorfendum innsýn í það sem er þar í gangi varðandi meiðsli leikmanna og annað eins og að ræða við þjálfara í hálfleiknum.

Viðtalið við þjálfaranna er ekki í mynd heldur kemur íþróttafréttamaðurinn sjálfur í mynd og segir stuttlega frá spjalli sínu við þjálfarann. Viðtalið er ekki langt og oftast á almennu nótunum.

„Ég hef sagt frá þessu áður og ég hef því ekki verið rekin fyrir að segja frá þessu svo ég endurtek mig hérna. Ég bjó stundum til fréttir af því að í fyrsta lagi kom þjálfarinn stundum ekki í viðtal í hálfleik eða í öðru lagi var hann of seinn. Ég vildi ekki klúðra innslaginu mínu og ég hugsaði bara: Ég skálda þetta bara,“ sagði Charissa Thompson.

„Ástæðan var að enginn þjálfari yrði reiður yfir því ef ég segi: Heyrðu við þurfum að hætta að gera okkur sjálfum erfitt fyrir eða við þurfum að vera betri á þriðju tilraun eða við þurfum að hætta að tapa boltanum,“ sagði Charissa og bætti við:

„Eins og þeir fari að leiðrétta mig út af þessu,“ sagði Charissa sem passaði sig að tala í klisjum og mjög almennt þegar hún laug til um viðtöl við þjálfara.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×