Fótbolti

Stórar fréttir fyrir Arnór bárust í upp­­hafi undir­búnings Ís­lands

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason átti góðan leik á miðjunni fyrir íslenska liðið.
Arnór Ingvi Traustason átti góðan leik á miðjunni fyrir íslenska liðið. Vísir/Hulda Margrét

Ís­lenski lands­liðs­maðurinn Arnór Ingvi Trausta­son hefur verið með lands­liðinu í undir­búningi liðsins í Vín fyrir síðustu tvo leiki sína í undan­keppni EM, úti­leiki gegn Slóvakíu og Portúgal. Arnór sneri aftur á gamlar slóðir í Vín en hann spilaði á sínum tíma með liði Rapid Wien þar í borg og í upphafi landsliðsverkefnisins bárust stórar fréttir úr herbúðum félagsliðs hans, IFK Norrköping.

„Ég var hérna 2016 og að­eins 2017. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem hingað til Vínar síðan þá. Ég viður­kenni það alveg að það var smá skrítið fyrst en einnig gaman. Tíminn hér var svo­lítið upp og niður, skraut­legur, en ég á góðar minningar héðan. Vín er frá­bær borg.“

Leikirnir fram­undan fyrir ís­lenska lands­liðið eru mikil­vægir. Ekki bara sökum þess að liðið á enn mögu­leika, veikan mögu­leika, á því að tryggja sér 2. sæti riðilsins og EM sæti. Heldur einnig sökum þess að lík­legri mögu­leikinn. EM sæti í gegnum um­spil Þjóða­deildar Evrópu er einnig til staðar.

Arnór segir ís­lenska lands­liðið nálgast þetta til­tekna verk­efni eins og öll önnur.

„Þetta eru tveir fót­bolta­leikir sem þurfa að spilast. Við viljum gera okkar besta í þeim leikjum. Við viljum ná í ein­hver stig, taka skref fram á við. Fókusinn liggur kannski hér núna en ég get alveg að mesti fókusinn liggur á mars verk­efninu. Við þurfum bara að taka skref fram á við. Undir­búa okkur undir mögu­legt um­spil og taka það með í mars­verk­efnið.“

Slóvakarnir geta tryggt sér EM-sæti með jafn­tefli eða sigri gegn Ís­landi á fimmtu­daginn kemur.

Við hvernig leik býstu?

„Þetta verður erfiður en skemmti­legur leikur. Þeir geta tryggt sér sæti á EM með hag­stæðum úr­slitum gegn okkur. Er ekki alltaf gaman að skemma partý? Það væri geggjað að fara þangað og taka þrjú stig.“

Arnór Ingvi spilar með IFK Norr­köping í efstu deild Sví­þjóðar og í upp­hafi lands­liðs­verk­efnisins bárust stórar fréttir úr her­búðum liðsins er greint var frá því að þjálfarinn Glen Ridd­ers­holm hefði verið látinn fara.

„Mig var farið að gruna að þetta yrði lendingin,“ segir Arnór að­spurður hvernig hann hefði frétt af þessum breytingum. „Ég vissi ekkert þannig séð af þessu þegar að þetta kom fyrst út. Tíma­bilið í heild sinni hjá okkur var kafla­skipt.

Við áttum góðan fyrri hluta en svo get ég ekki sett puttann á það hvað fór úr­skeiðis hjá okkur á seinni hlutanum. Það virkaði ekkert af því sem við vildum gera. Þjálfarinn fær að líða fyrir það, eins og oft á tíðum er. Þetta er frá­bær maður, frá­bær þjálfari og ég óska honum alls hins besta.“

Og þessu tengt hefur íslenski miðillinn Fótbolti.net greint frá því að Arnar Gunnlaugsson, núverandi þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings Reykjavíkur, sé í viðræðum við IFK Norrköping um að verða þjálfari liðsins. 

Klippa: Er ekki alltaf gaman að skemma partý?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×