Fótbolti

Ítölsku meistararnir reka þjálfarann sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rudi Garcia fær ekki að halda áfram sem þjálfari ítalska félagsins SSC Napoli.
Rudi Garcia fær ekki að halda áfram sem þjálfari ítalska félagsins SSC Napoli. Getty/Cesare Purini

Rudi Garcia entist ekki nema í nokkra mánuði sem þjálfari ítölsku meistaranna í Napoli.

Ítölsku miðlarnir Gazzetta dello Sport og Il Corriere Azzurro sem og Fabrizio Romano segja frá því að Napoli ætli að reka franska þjálfarann. Framundan er landsleikjahlé.

Síðasti leikurinn undir stjórn Garcia var 1-0 tap á heimavelli á móti Empoli um helgina.

Rudi Garcia tók við Napoli af Luciano Spalletti sem hætti með liðið eftir að hafa gert félagið að ítölskum meisturum síðasta vor. Það var fyrsti meistaratitill Napoli síðan 1990 eða í 33 ár.

Titiilvörnin hefur ekki gengið nógu vel en liðið situr í fjórða sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði Internazionale.

Gazzetta segir frá því að forseti Napoli, Aurelio De Laurentiis, hafi mætt inn í búningsklefann í hálfleik um helgina og tekið yfir hálfleiksræðuna hjá Garcia. Staðan var 0-0 eftir 45 mínútna leik.

Garcia er 59 ára gamall og þjálfaði síðast á Ítalíu frá 2013 til 2016 þegar hann var með lið Roma. Hann hafði síðan stýrt liðum Marseille, Lyon og Al Nassr á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×