Handbolti

„Ég er eigin­lega heppnasti handboltamaður í heimi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Bjarni Ólafsson með boltann eftir að hafa tekið við sendingu frá Aroni Pálmarssyni.
Jón Bjarni Ólafsson með boltann eftir að hafa tekið við sendingu frá Aroni Pálmarssyni. vísir/vilhelm

Jón Bjarni Ólafsson átti stórleik þegar FH vann Hauka í Hafnarfjarðarslagnum í Olís-deildinni. Hann nýtur þess til hins ítrasta að spila með Aroni Pálmarssyni.

Jón Bjarni skoraði tíu mörk úr ellefu skotum í 29-32 sigri FH-inga á Ásvöllum í fyrradag. Með sigrinum komst liðið á topp Olís-deildarinnar.

„Þetta var hörkuleikur eins og leikir þessara liða eru alltaf. Maður mætti undirbúinn og gíraður og gerði sitt,“ sagði Jón Bjarni í samtali við Vísi.

Aron var einnig í miklum ham í leiknum á fimmtudaginn, skoraði fimm mörk og gaf þrettán stoðsendingar, þar af tíu á Jón Bjarna. Hann lagði því upp öll mörk línumannsins.

„Þetta er veisla, það er ekkert annað,“ sagði Jón Bjarni aðspurður hvernig það sé að spila með Aroni. „Hann gerir sitt og ég þarf bara að grípa boltann. Þá er þetta komið.“

Jón Bjarni segist eðlilega hafa orðið spenntur þegar hann frétti af heimkomu Arons eftir glæstan feril í atvinnumennsku enda er hann duglegur að mata línumennina sem hann spilar með.

„Ég er eiginlega heppnasti handboltamaður í heimi,“ sagði Jón Bjarni. „Hann er duglegur að leiðbeina manni og segja manni hvernig maður getur bætt sig. Hann er góður leiðbeinandi.“

Jón Bjarni er fárra örvhentra línumanna í bransanum.vísir/vilhelm

Jón Bjarni segir að FH-ingar séu sáttir með tímabilið hingað til, enda á toppi Olís-deildarinnar og komnir áfram í Powerade-bikarnum og Áskorendabikarnum.

„Við erum á því róli sem við ætlum að vera á. Við ætlum að halda okkur þarna efst uppi. Það er planið,“ sagði Jón Bjarni.

Línumaðurinn hefur verið í stöðugri framför undanfarin ár og hann stefnir enn hærra.

„Ég er mjög ánægður. Þetta er afrakstur mikilla æfinga og handboltinn fær mjög mikla athygli frá mér. Ég er með mín markmið og ætla mér að gera alls konar hluti. Ég er á þeirri vegferð,“ sagði Jón Bjarni.

En hvert er stefnan sett?

„Mig langar bara að verða bestur. Á maður ekki alltaf að reyna að vera bestur?“ svaramaður línumaðurinn örvhenti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×