Fótbolti

Sá marka­hæsti í Meistara­deildinni hefur bara skorað í tap­leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Höjlund fagnar marki í gær þegar allt leit út fyrir öruggan sigur Manchester United.
Rasmus Höjlund fagnar marki í gær þegar allt leit út fyrir öruggan sigur Manchester United. AP/Liselotte Sabroe

Danski framherjinn Rasmus Höjlund hefur raðað inn mörkum fyrir Manchester United í Meistaradeildinni á þessu tímabili en þessi fjölmörgu mörk hans eru hins vegar ekki að skila enska liðinu sigrum.

Höjlund bætti við tveimur mörkum á móti danska liðinu FC Kaupmannahöfn í gær og er nú markahæsti leikmaður Meistaradeildairnnar til þessa á tímabilinu. Höjlund hefur skorað fimm mörk eða jafnmörk og Álvaro Morata hjá Atlético Madrid.

Manchester United liðið er aftur á móti á botni síns riðils, með þrjú stig af tólf mögulegum og þarfnast þess núna að mikið falli með liðinu í síðustu tveimur umferðunum svo að liðið komist áfram í sextán liða úrslitin.

Það sem er kannski athyglisverðast með þessu fimm Meistaradeildarmörk Höjlund er að þau hafa öll komið í tapleikjum.

Höjlund kom United í 2-0 á móti FCK í gær með tveimur mörkum snemma leiks en liðið tapaði leiknum á endanum 4-3.

Hann opnaði markareikning sinn fyrir United í fyrsta Meistaradeildarleiknum sínum fyrir félagið sem var á móti Bayern München úti í Þýskalandi. Bæjarar unnu þann leik 4-3 eftir að hafa komist bæði í 2-0 og 3-1. Mark Höjlund minnkaði muninn í 2-1 á 49. mínútu.

Höjlund skoraði tvö mörk í fyrsta Meistaradeildarleik sínum á Old Trafford en það dugði ekki til því Galatasaray vann leikinn 3-2. Höjlund hafði komið United tvisvar yfir í leiknum, fyrst í 1-0 á 17. mínútu og svo í 2-1 á 67. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×