Fótbolti

Segir að VAR sé að breyta fót­boltanum í tölvu­leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ivan Kruzliak rekur Daizen Maeda af velli í leik Atlético Madrid og Celtic í gær.
Ivan Kruzliak rekur Daizen Maeda af velli í leik Atlético Madrid og Celtic í gær. getty/Isabel Infantes

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Celtic, segir að verið sé að breyta fótboltanum í tölvuleik með myndbandsdómgæslunni (VAR).

Daizen Maeda, leikmaður Celtic, var rekinn af velli þegar skosku meistararnir steinlágu fyrir Atlético Madrid, 6-0, í Meistaradeild Evrópu í gær. 

Maeda fékk upphaflega gult spjald fyrir að tækla Mario Hermoso en eftir skoðun á myndbandi var refsingin þyngd.

Þegar Maeda tæklaði Hermoso stukku Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético, og félagar hans á varamannabekk spænska liðsins upp og kröfðust þess að Japaninn yrði rekinn af velli. Rodgers segir að viðbrögð Atlético-manna hafi haft áhrif á ákvörðun dómarans Ivans Kruzliak að sýna Maeda rauða spjaldið.

„Engin spurningin,“ sagði Rodgers og fór svo að tala um áhrif VAR á fótboltann.

„Ég vil ekki halda áfram að tala um dómarana. Þú verður að sætta þig við ákvarðanir þeirra. En núna er þetta farið að vera eins og tölvuleikur þar sem það er endalaust verið að stara á skjá. Þegar dómarar horfa á atvik á skjá gefur það ekki rétta mynd af því. Þetta var stillimynd af honum með fótinn uppi sem plantar hugmynd í kollinn á dómaranum og þá ákveður hann að reka leikmanninn út af.“

Celtic hefur aðeins fengið eitt stig í Meistaradeildinni í vetur og er í fjórða og neðsta sæti E-riðils. Atlético er á toppi riðilsins með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×