Fótbolti

Grýtti VAR-skjá í grasið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Iago Aspas, fyrirliði Celta Vigo, var verulega pirraður undir lok leiksins gegn Sevilla.
Iago Aspas, fyrirliði Celta Vigo, var verulega pirraður undir lok leiksins gegn Sevilla. vísir/getty

Iago Aspas, fyrrverandi leikmaður Liverpool, lét reiði sína bitna á VAR-skjá þegar Celta Vigo gerði 1-1 jafntefli við Sevilla í spænsku úrvalsdeildinni um helgina.

Atvikið átti sér stað undir lok leiksins. Aspas var þá á bekknum en hann var tekinn af velli á 69. mínútu.

Dómari leiksins, Alejandro Hernandez, dæmdi vítaspyrnu á Sevilla eftir að Jesus Navas braut á Anastasios Douvikas. En eftir að hafa ráðfært sig við VAR-dómara leiksins sneri Hernandez dómnum við.

Aspas var langt frá því að vera sáttur við þessa ákvörðun. Í bræði sinni gekk hann að VAR-skjá á hliðarlínunni og kastaði honum í grasið. Eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan var Aspas næstum því búinn að grýta skjánum á fjórða dómara leiksins.

Líklegt þykir að atvikið dragi dilk á eftir sér og Aspas, sem er fyrirliði Celta, gæti átt von á refsingu.

Aspas gekk aftur í raðir Celta frá Liverpool 2015. Hann hefur skorað 146 mörk í 316 leikjum fyrir liðið síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×