Innlent

Vatnshellir á Snæ­fells­nesi nýtur mikilla vin­sælda

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ægir Þór Þórsson framkvæmdastjóri Vatnshellisins á Snæfellsnesi.
Ægir Þór Þórsson framkvæmdastjóri Vatnshellisins á Snæfellsnesi. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ferðir í Vatnshelli á Snæfellsnesi með ferðamenn hafa heldur betur slegið í gegn því það eru farnar sextán ferðir á dag þegar mest er að gera. Um er að ræða tvö hundruð metra langan hraunhelli þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja.

Vatnshellirinn, sem er í Purkhólahrauni sunnan við Snæfellsjökul er einn af vinsælustu ferðamannastöðunum á Snæfellsnesi. Hellirinn er aðgengilegur með hringstigum en þá er farið um 35 metra niður fyrir yfirborð jarðar og um 200 metra inn í hellinn með vasaljósum. Feðgarnir Þór Magnússon og Ægir Þór eiga heiðurinn af starfseminni og hellaferðunum.

„Þetta er hraunrása hellir, sem að varð til hér fyrir átta þúsund árum, gaus hér í eldfjalli, sem er hér á bak við og heitir Purkhóll. Hann er um 200 metra langur og við förum svona 35 metra undir yfirborðið í þessari ferð, sem við erum að fara og það er eiginlega skoðaður allur hellirinn í þeirri ferð. Það er frekar hátt til loft myndi ég segja miðað við aðra hella en kannski ekkert rosalega langur þannig séð,” segir Ægir Þór Þórsson framkvæmdastjóri hellisins.

Ægir segir að ferðirnar í hellinn hafi alveg slegið í gegn.

„Já, það má alveg segja það. Við erum búin að vera hérna núna í 10 ár og þetta hefur bara gengið vel. Það eru auðvitað eins og á flestum ferðamannastöðum þá eru þetta langmest erlendir ferðamenn en þetta hafa verið svona tíu prósent Íslendingar í gegnum tíðina hjá okkur.

Þetta eru svona um 16 ferðir á dag þegar mest er að gera, sem við erum að fara. Það er á hálftíma fresti alveg frá 10:00 til 17:30,” segir Ægir.

Ferðamenn eru mjög ánægðir með þá upplifun, sem fylgir því að fara í hellinn.Aðsend

En hver er upplifun ferðamanna, sem hafa skoðað hellinn?

„Bara mjög góð myndi ég segja. Við höfum bara verið mjög ánægð með viðtökurnar og fólk virðist bara fíla þetta mjög vel að komast svona inn í hraunrásahelli.”

Heimasíða fyrirtækisins



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×