Fótbolti

Öster hélt úrvalsdeildarvoninni á lífi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Leikmenn létu snjókomu ekkert á sig fá í leik dagsins
Leikmenn létu snjókomu ekkert á sig fá í leik dagsins Öster / X

Sænska knattspyrnufélagið Öster hélt voninni að komast í efstu deild á lífi með 2-1 sigri gegn Östersund. Þorri Mar Þórisson spilaði allan leikinn í hægri bakverði Öster en Alex Þór Hauksson sat á varamannabekk liðsins. Srdjan Tufegdzic, fyrrum leikmaður KA, er þjálfari liðsins. 

Aðeins ein umferð á eftir að vera spiluð í næstefstu deild Svíþjóðar. Västerås SK hefur nú þegar tryggt sér toppsætið en það er alls óvíst hverjir munu fylgja með þeim upp í Allsvenskan, efstu deild Svíþjóðar. Efstu tvö liðin fara beinustu leið upp en liðið í þriðja sæti spilar úrslitaleik við þriðja neðsta liðið í Allsvenskan um sæti í efstu deild á næsta ári. 

Með sigrinum í dag minnkaði Öster bilið í Utsikten sem situr í þriðja sætinu í  aðeins eitt stig fyrir lokaumferðina. Þar mætir Öster liðinu í 10. sæti, Sundsvall, en Utsikten á erfiðari leik sér fyrir höndum þegar þeir heimsækja GAIS sem situr í 2. sætinu. 

GAIS á leik til góða og getur endanlega tryggt sér 2. sætið með sigri gegn fallbaráttuliðini J-Södra á morgun. 

Í efstu deild lifir baráttan um þriðja neðsta sætið enn góðu lífi, tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni og eins og staðan er núna verður það Brommapojkarna sem spilar umspilsleikinn. Þeir eru þremur stigum á eftir Göteborg og fimm stigum eftir Halmstad og AIK. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×