Körfubolti

Kevin Durant dró vagninn í öruggum sigri Phoenix Suns

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kevin Durant var stigahæsti maður vallarins í sigri Phoenix Suns í nótt.
Kevin Durant var stigahæsti maður vallarins í sigri Phoenix Suns í nótt. Christian Petersen/Getty Images

Phoenix Suns vann góðan 22 stiga sigur er liðið tók á móti Utah Jazz í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 126-104.

Hinn 35 ára gamli Kevin Durant virðist lítið sem ekkert vera að hægja á sér þrátt fyrir að vera að nálgast seinni hluta ferilsins. Hann skoraði 26 stig fyrir Suns í nótt, ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa sjö stoðsendingar og var stigahæsti maður vallarins.

Heimamenn í Phoenix Suns voru betri aðilinn frá upphafi til enda og voru tíu stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. Liðið jók forskot sitt lítillega fyrir hálfleik og staðan var 66-50 þegar liðin gegnu til búningsherbergja.

Durant og félagar gerðu svo nánast út um leikinn í þriðja leikhluta þar sem liðið skoraði 40 stig gegn 28 stigum gestanna. Lokaleikhlutinn var því hálfgert formsatriði fyrir heimamenn sem unnu að lokum 22 stiga sigur, 126-104.

Kevin Durant var sem áður segir stigahæsti maður vallarins með 26 stig fyrir Phoenix Suns, en í liði Utah Jazz var Lauri Markkanen atkvæðamestur með 19 stig.

Úrslit næturinnar

New York Knicks 87-96 New Orelans Pelicans

Memphis Grizzlies 106-113 Washington Wizards

Chicago Bulls 102-118 Detroit Pistons

Philadelphia 76ers 114-107 Toronto Raptors

Indiana Pacers 125-113 Cleveland Cavaliers

Miami Heat 90-106 Minnestoa Timberwolves

Utah Jazz 104-126 Phoenix Suns

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×