Fótbolti

Foreldrum Luis Diaz rænt í Kólumbíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Foreldrum Luis Diaz var rænt í heimalandi sínu.
Foreldrum Luis Diaz var rænt í heimalandi sínu. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Foreldrum kólumbíska knattspyrnumannsins Luis Diaz, leikmanns Liverpool, var rænt í heimalandi sínu eftir að hafa verið stöðvuð af byssumönnum á mótorhjólum.

Sky Sports er meðal þeirra miðla sem segir frá. Móður leikmannsins hefur verið bjargað, en föður hans er enn leitað. Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, hefur kallað út herinn til að leita að föður Diaz.

Móður leikmannsins, Cilenis Marulanda, var leyst úr haldi mannræningja af lögrelgunni í borginni Barrancas. Forsetin sagði sjálfur frá aðgerðunum á X, áður Twitter.

„Eftir aðgerðir í Barrancas hefur móður Luis Diaz verið bjargað úr haldi mannræningja. Við höldum leitinni áfram að föður hans,“ ritaði Petro.

William Salamanca, yfirmaður lögreglunnar í Kólumbíu, segir að allir lausir lögreglumenn vinni nú í því að finna föður Diaz. Foreldrum þessa 26 ára gamla leikmanns Liverpool og kólumbíska landsliðsins var rænt á leið sinni heim að því er fregnir herma.

Talið er að þau hafi verið á bensínstöð þegar vopnaðir menn á mótorhjólum komu og rændu þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×