Fótbolti

Liverpool og Chelsea fylgjast grannt með stöðu mála hjá Osimhen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Victor Osimhen er eftirsóttur.
Victor Osimhen er eftirsóttur. Ivan Romano/Getty Images

Ensku úrvalsdeildarfélögin Liverpool og Chelsea fylgjast grannt með samningsstöðu Victors Osimhen um þessar mundir.

Það er The Mirror sem greinir frá því að félögin fylgist vel með stöðu mála hjá nígeríska framherjanum, en samningur hans við Napoli rennur út árið 2025.

Osimhen hefur verið eftirsóttur biti á leikmannamarkaðinum undanfarin ár, en hann hefur hingað til haldið kyrru fyrir hjá Napoli. Félagið reynir nú að framlengja samningi hans við félagið, en samningaviðræðurnar eru sagðar ganga erfiðlega.

Þessi 24 ára framherji hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin tímabil og skoraði hann 26 mörk í ítölsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili er félagið vann sinn fyrsta meistaratitil síðan árið 1990.

Ástæða þess að samningaviðræður Napoli og Osimhen gangi erfiðlega er sögð vera að Aurelio De Laurentiis, forseti félagsins, vilji hafa klásúlu í samningnum sem segir að það muni kosta 200 milljónir evra að losa framherjann undan samningi sínum. Það samsvarar um 29,5 milljörðum íslenskra króna, en talið er að Osimhen vilji eiga möguleika á auðveldari leið til að losna undan nýjum samningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×