Sport

Hrútarnir spörkuðu sparkaranum eftir slæma helgi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brett Maher er nú atvinnulaus eftir að hann var látinn fara frá Los Angeles Rams.
Brett Maher er nú atvinnulaus eftir að hann var látinn fara frá Los Angeles Rams. Getty/Harry How

NFL sparkarinn Brett Maher er atvinnulaus eftir slaka frammistöðu sína um helgina en hann var látinn fara tveimur dögum eftir hörmungarframmistöðu sína með Los Angeles Rams á móti Pittsburgh Steelers.

Í staðinn ætla Hrútarnir að fá til sín fyrrum sparkara Indianapolis Colts en sá heitir Lucas Havrisik og hefur verið með æfingaliði Cleveland Browns.

Maher klikkaði á þremur mikilvægum spörkum í leik Rams um helgina þegar liðið tapaði 17-24 á móti Pittsburgh Steelers á heimavelli sínum.

Maher náði ekki að nýta tvær vallarmarkstilraunir af 51 og 53 jörum og svo klikkaði hann einnig á einu aukastigi. Hann hefur nýtt 74 prósent sparka sinna á leiktíðinni.

Þetta er harður heimur að vera sparkari í NFL þar sem einn slæmur leikur getur kostað þig starfið. Maher nýtt öll fjögur spörkin sín vikuna áður og var þriðji stighæsti sparkari NFL deildarinnar til þess að tímabilinu.

Brett Maher er 33 ára gamall og var á sínu fyrsta tímabili með Los Angeles Rams. Hann lék með Dallas Cowboys í fyrra og bæði Arizona Cardinals og New Orleans Saints tímabilið þar á undan.

„Hann verður að gera betur. Þetta eru sjö stig sem við misstum af og þetta var á gríðarlega mikilvægum tímapunktum í leiknum,“ sagði Sean McVay, þjálfari Los Angeles Rams, eftir leikinn.

Maher kom í staðinn fyrir hinn trausta Matt Gay sem skrifaði undir fjögurra ára samning við Indianapolis Colts sem mun skila honum 22,5 milljónum dollara eða meira en þremur milljörðum króna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×