Fótbolti

Arnar Gunnlaugs: Blekking að halda allt sé í himnalagi hjá Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson hefur miklar áhyggjur af hans mönnum í enska boltanum sem er lið Manchester United.
Arnar Gunnlaugsson hefur miklar áhyggjur af hans mönnum í enska boltanum sem er lið Manchester United. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslandsmeistara Víkings, er líka harður stuðningsmaður Manchester United og hann hefur áhyggjur af sínu liði eftir byrjunina á tímabilinu.

Arnar ræddi spilamennsku Manchester United í Meistaradeildarmörkunum í gærkvöldi en liðið vann þá nauman 1-0 sigur á danska félaginu FC Kaupmannahöfn.

United menn sluppu með skrekkinn undir lok leiksins þegar FCK fékk víti en Andre Onana var hetjan og varði vítaspyrnuna.

Arnar setti spurningarmerki við leikskipulagið hjá United liðinu.

„Við erum að fá allt of skrýtnar færslur á leikmönnum sem gerir það að verkum að þegar við missum boltann þá eru menn ekki í réttum stöðum,“ sagði Arnar sem talaði alltaf um okkur þegar hann ræddi um United-liðið.

„Við erum að fá á okkur skyndisókn, eftir skyndisókn eftir skyndisókn þar sem öll lið eiga möguleika á því að skora tvisvar til þrisvar ef ekki fjórum sinnum á móti United í hverjum einasta leik,“ sagði Arnar.

„Þetta er áhyggjuefni. Þessi leikur vannst sem er frábært og ekkert nema gott um það að segja. Það er blekking að halda það að það sé allt í himnalagi á leikvelli draumanna,“ sagði Arnar.

Klippa: Arnar Gunnlaugsson um Manchester United



Fleiri fréttir

Sjá meira


×