Innlent

Ráða­menn hafi engan á­huga á ó­fremdar­á­standi á lána­markaði

Árni Sæberg skrifar
Ingibjörg Þórðardóttir, fasteignasali og fyrrverandi formaður Félags fasteignasala.
Ingibjörg Þórðardóttir, fasteignasali og fyrrverandi formaður Félags fasteignasala. Bylgjan

Fasteignasali segir að húsnæðislánakerfið hér á landi hafi ekkert skánað á þeim fjörutíu árum síðan verðtrygging var innleidd. „Fólk bara deyfist og svæfist við þetta mótlæti, herðir að sér.“

Þetta sagði Ingibjörg Þórðardóttir, fasteignasali og fyrrverandi formaður Félags fasteignasala, þegar hún ræddi stöðuna á húsnæðismarkaði í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Þáttastjórnendur fengu Ingibjörgu í viðtal eftir að hafa heyrt af neytanda sem greiðir mánaðarlega 449 þúsund krónur af húsnæðisláni, þar af aðeins 6.780 krónur inn á höfuðstól lánsins.

„Þetta er náttúrulega hlutur sem er búið að ræða í áratugi, í raun allt frá því að verðtryggingu var skellt á árið 1980, með þessum Ólafslögum svokölluðu, og þetta átti að vera til skammst tíma. Það var mikil verðbólga í kringum 1980 til 1983, þegar Sigtúnshópurinn var að berjast. Það eru fjörutíu ár síðan og í raun og veru hefur kerfinu ekkert farið fram á þessum tíma,“ segir Ingibjörg.

Fólk hætti síðast að greiða af láninu

Ingibjörg segir að fólk reyni eftir fremsta megni að greiða af húsnæðisláninu og geti þar af leiðandi jafnvel ekki greitt fyrir hádegismat barna sinna í skólanum.

„Þetta bitnar náttúrulega harðast á þeim sem eru tiltölulega nýbúin að koma sér út á markað og þetta er svo mikil svívirða. Hvar enda þessir peningar?“

Ráðamenn hafi takmarkaðan áhuga á að setja sig inn í málin

Ingibjörg segir að nú sé fólki boðið upp á að greiða allt að þrefalda afborgun frá því sem að best lét, þeim sem tóku lán á meðan heimsfaraldur kórónuveiru geisaði og reynt var að hreyfa við húsnæðismarkaði.

„Ég leyfi mér að segja það að ég er farin að efast um að ráðamenn okkar, sem eru ríkisstjórnin og þeir sem sitja á þingi, skilji þetta og að þeir hafi afar takmarkaðan áhuga á því að setja sig inn í þessi mál. Það eru of margir sem synda fram hjá og segja  „þetta er ekki mitt vandamál.“.“

Viðtal við Ingibjörgu má heyra í heild sinni hér að neðan:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×