Innlent

Ráðist á átta ára dreng á Sel­fossi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Málið er komið á borð lögreglu.
Málið er komið á borð lögreglu. Vísir

Ráðist var á átta ára dreng við róluvöll á Selfossi í gær. Málið er komið á borð lögreglu.

Faðir drengsins greinir frá því í íbúahóp Selfyssinga á Facebook að ráðist hafi verið á son hans rétt fyrir utan Gráhellu klukkan 19.50 í gær. Árásarmennirnir hafi verið fjórir hávaxnir unglingar, einn í rauðri peysu, annar í svartri og tveir í grárri. Hann biður vitni vinsamlegast að stíga fram.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi staðfestir í samtali við fréttastofu að málið sé komið á borð lögreglu og sé í rannsókn.

Elí Kristberg Hilmarsson, faðir drengsins, segir í samtali við Vísi að sonur hans hafi komið heim í miklu uppnámi. Hann telur að árásarmennirnir hafi verið fimmtán eða sextán ára.

„Hann var bara að labba heim frá vini sínum og gengur fram hjá róló sem er hérna nálægt okkur. Þá sér hann fjóra unglinga á vappinu í kringum rólóinn, það er náttúrulega orðið dimmt á þessum tíma. Þetta er rétt fyrir átta og hann er á leiðinni heim. Þá bendir einn þeirra á hann og þeir segja eitthvað á pólsku sem hann náttúrulega skilur ekki.“

„Svo æða þeir á móti honum og hann frýs, einn rífur í hettuna á honum, annar tekur í hann og hrindir honum og svo byrja þeir að sparka ítrekað í hann: bakið á honum, löppina, síðuna og annað. Hann er alveg með áverka eftir þetta. Eins og hann sagði sjálfur: „Ég var bara að labba og bjóst ekkert við því að þeir myndu koma og ráðast á mig,“ enda bara að labba heim til sín.“

Elí segist hafa fengið ábendingar fá íbúum á Selfossi en hafi enn ekki fundið árásarmennina. Hann fór sjálfur á vettvang í gærkvöldi en þá voru unglingarnir á bak og burt. Eins og fyrr segir er málið komið á borð lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×