Handbolti

Selfyssingar með sinn fyrsta sigur í haust

Siggeir Ævarsson skrifar
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í kvöld, ekki í fyrsta sinn
Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í kvöld, ekki í fyrsta sinn Vísir/Diego

Selfyssingar sóttu loks sinn fyrsta sigur í Olís-deild karla í dag þegar liðið lagði HK í botnslag í Kópavogi. Lokatölur leiksins 20-24.

Fyrir leikinn var Selfoss án stiga á botni deildarinnar eftir sex leiki en staðan ekki mikið betri í Kópavogi, einn sigur og eitt jafntefli komið í hús hjá HK.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af en Selfoss náði 6-9 forskoti undir lok fyrri hálfleiks, bættu svo í og leiddu 6-11 í hálfleik. Heimamenn gáfust þó ekki upp og náðu að minnka muninn í tvö mörk tvisvar sinnum en Selfyssingar voru sterkari á lokasprettinum og fóru með öll stigin úr Kópavogi í dag.

Hjörtur Ingi Halldórsson fór mikinn í liði HK og var langmarkahæstur með níu mörk. Gestirnir dreifðu mörkunum mjög jafn sín á milli en Einar Sverrisson og Tryggvi Sigurberg Traustason voru markahæstir þar með fjögur mörk hvor.

Markmenn beggja liða áttu ágætan dag, Sigurjón Guðmundsson hjá HK með 15 skot varin og Alexander Hrafnkelsson hjá Selfossi með 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×