Fótbolti

Sænska liðið í lög­reglu­fylgd út á flug­völl og stuðnings­fólkið í lög­reglu­vernd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn sænska landsliðsins í stúkunni í gær.
Stuðningsmenn sænska landsliðsins í stúkunni í gær. Getty

Leikur Belgíu og Svíþjóðar í undankeppni EM í gærkvöldi var flautaður af í hálfleik eftir að sænska liðið frétti fyrst þá af skotárás á sænska stuðningsmenn í Brussel.

Strax á eftir var mikið óvissuástand fyrir bæði sænska liðið sem og fyrir stuðningsmenn þess eftir hryllilegar fréttir af örlögum landa þeirra í miðbæ belgísku höfuðborgarinnar.

Sænska landsliðið fór í lögreglufylgd beint út á flugvöll og yfirgaf Belgíu strax eftir leikinn.

Sænska knattspyrnusambandið hafði frétt af árásinni rétt fyrir leikmenn en leikmenn og þjálfarar liðsins vissu ekkert af henni fyrr en þeir gengu til hálfleiks.

Fjögur hundruð stuðningsmenn sænska liðsins voru aftur á móti áfram í Brussel í gær og nótt.

Þeir voru settir í lögreglufylgd og það voru lögreglumenn sem vöktuðu hótelin þeirra.

Fólkið fór að týnast af leikvanginum klukkan 23.45 á staðartíma og þeir síðustu yfirgáfu völlinn klukkan fjögur um nóttu að staðartíma.

Í morgun var síðan áraásamaðurinn skotinn til bana af belgísku lögreglunni.

Victor Lindelof, fyrirliði sænska landsliðsins og leikmaður Manchester United, sagði að belgíska lögreglan hafi fullvissað leikmenn liðsins að þeir væru á öruggasta staðnum í Brussel. 

Lindelof talaði líka um það að það væri engin ástæða til að klára leikinn eða spila hann aftur því Belgar væru öruggir á EM og Svíar úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×