Innlent

„Ég úti­loka það alls ekki að ég verði á­fram í ríkis­stjórninni“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bjarni Benediktsson segist ekki útiloka neitt þegar kemur að framtíðinni.
Bjarni Benediktsson segist ekki útiloka neitt þegar kemur að framtíðinni. Vísir/Vilhelm

„Ég tók eina ákvörðun í dag og ég á eftir að taka ýmsar aðrar ákvarðanir en ég útiloka það alls ekki að ég verði áfram í ríkisstjórninni,“ sagði Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Bjarni boðaði til blaðamannafundar í gærmorgun vegna álits Umboðsmanns Alþingis, sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar tilkynnti ráðherrann að hann hygðist segja af sér; hann væri ósammála forsendum en virti álit umboðsmanns.

Samkvæmt Morgunblaðinu verður boðað til ríkisráðsfundar á Bessastöðum um helgina. Þá kemur væntanlega í ljós hver tekur við fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

Strax í gær bárust fregnir af því að Bjarni myndi mögulega taka við öðru ráðherraembætti og var utanríkisráðuneytið nefnt í þessu sambandi en Morgunblaðið segir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur trega til að fara úr ráðuneytinu vegna mikilvægra verkefna á alþjóðavettvangi.

Blaðið segist hafa heimildir fyrir því að bæði Vinstri grænir og Framsókn horfi til umfangsmeiri stólaskipta, jafnvel þannig að flokkarnir skiptist á ráðuneytum. Þetta er ekki síst forvitnilegt í ljósi þess að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur verið Sjálfstæðismönnum afar erfið og mögulegt að menn horfi til þess.

Viðmælendur sem fréttastofa ræddi við í gær voru ekki á því að ákvörðun Bjarna um að segja af sér myndi endilega hafa áhrif á stjórnarsamstarfið, að minnsta kosti ekki ef hann yrði áfram formaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra.

Hins vegar á Umboðsmaður enn eftir að gefa út álit sitt um ákvarðanir Svandísar varðandi hvalveiðar og spurning hvað gerist þegar það liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×