Körfubolti

Öruggt hjá Kefla­vík og Þór fór illa með Snæ­fellinga í ný­liða­slagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 21 stig fyrir Keflvíkinga í kvöld.
Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 21 stig fyrir Keflvíkinga í kvöld. Vísir/Vilhelm

Keflavík og Þór Akureyri unnu örugga sigra í leikjum kvöldsins í Subway-deild kvenna í körfubolta. Keflvíkingar unnu 30 stiga útisigur gegn Breiðablik og Þórsarar unnu 39 stiga risasigur gegn Snæfelli.

Keflvíkingar höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda gegn Blikum í Kópavoginum í kvöld. Gestirnir leiddu með tíu stigum að loknum fyrsta leikhluta og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn orðinn 16 stig, staðan 33-49.

Áfram héldu Keflvíkingar að auka forskot sitt í síðari hálfleik og skoraði liðið 32 stig gegn 20 stigum heimakvenna í þriðja leikhluta. Fjórði leikhlutinn var því hálfgert formsatriði fyrir Keflvíkinga sem unnu að lokum 30 stiga sigur, 102-72.

Birna Valgerður Benónýsdóttir var stigahæsti í liði Keflavíkur með 21 stig, en hún tók einnig fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Í liði Breiðabliks var Sóllilja Bjarnadóttir atkvæðamest með 18 stig.

Þá vann Þór Akureyri afar öruggan 39 stiga sigur gegn Snæfelli í nýliðaslag fyrr í kvöld. Heimakonur settu tóninn strax í upphafi leiks og skoruðu 21 stig gegn aðeins sjö stigum gestanna í fyrsta leikhluta.

Þórsarar slökuðu aðeins á í öðrum leikhluta en keyrðu svo yfir gestina í seinni hálfleik og kláruðu leikinn afar sannfærandi, 86-47.

Lore Devos átti stórleik fyrir Þórsara, skoraði 28 stig, tók tíu fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Mammusu Secka dró vagninn fyrir gestina og skoraði 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×