Innlent

Ekki ljóst hvort veitinga­staðir eða aðrir hafi keypt heilsu­spillandi mat­vörur

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Bylgjan

Matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar hefur látið farga nokkrum tonnum af matvælum sem lagt var hald á í síðustu viku. Matvælin voru geymt á ólöglegum stað án tilskylinna leyfa og segir deildarstjóri matvælaeftirlitsins málið fordæmalaust.

Matvörurnar sem lagt var hald á voru geymd í húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og voru þetta ýmiss konar tegundir matvæla líkt og frystivara, kjöt, allskyns þurrvörur og sósur. Morgunblaðið greindi fyrst frá málinu.

 Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits Reykjavíkurborgar, segir enn óljóst hvort til hafi staðið að selja matvælin til veitingastaða eða annarra.

„Við höfum ekki upplýsingar um það eins og er. Málið er í rannsókn en það sem er mikilvægast í þessu er að það er búið að ná utan um þessi matvæli sem við höfðum rökstuddan grun um að væru heilsuspillandi og óhæf til neyslu. Þess vegna var nauðsynlegt að farga þeim. Þau voru geymd við óheilnæmar aðstæður,“ segir Óskar og bætir við búið sé að tryggja matvælaöryggið með þessum aðgerðum með því að taka matvælin úr umferð og farga þeim. 

Aðspurður hvort eitthvað bendi til þess að veitingastaðir eða aðrir hafi átti í viðskiptum við viðkomandi aðila segir Óskar það einnig óljóst. „Við höfum óskað eftir upplýsingum fá þessum aðila um þessa hluti en höfum ekki þær upplýsingar núna.“

Óskar segir sektarheimildir matvælaeftirlitsins ekki skýrar í málum líkt og þessu en verið sé að skoða það með lögfræðingum eftirlitsins. Aðspurður hvort það sé ekki eitthvað sem ætti að vera skýrt segir Óskar það vissulega vera. „Jú það er mitt persónulega mat að það þyrfti að vera skýrari og betri heimildir fyrir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hvað svona mál varðar.“

Óskar segir alvarlegt mál ef viðkomandi aðili hafi ætlað að dreifa matvörunum. Fyrirtækið sem um ræðir sé ekki matvælafyrirtæki og hafi ekki leyfi sem slíkt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×