Fótbolti

Óskar Hrafn við son sinn: Ekki láta skömmina festast á þér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson er að spila með FCK í Meistaradeildinni en hann er nýorðinn nítján ára gamall.
Orri Steinn Óskarsson er að spila með FCK í Meistaradeildinni en hann er nýorðinn nítján ára gamall. Getty/Lars Ronbog

Það er svo sannarlega nóg að gera hjá feðgunum Óskari Hrafni Þorvaldssyni og Orra Steini Óskarssyni í þessari viku enda báðir á fullu í Evrópukeppnunum með liðum sínum. Óskar Hrafn stýrir Blikum í dag á heimavelli í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar og Orri spilaði á móti Bayern í Meistaradeildinni á þriðjudaginn.

Óskar Hrafn missir af tækifærinu að mæta á þessa leiki stráksins síns þar sem hann er sjálfur upptekinn í mjög krefjandi og um leið sögulegu verkefni með Blikum. Hann segir að eiginkonan Laufey Kristjánsdóttir sjái um strákinn en Orri Steinn er enn bara nítján ára gamall.

Svava Kristín Gretarsdóttir spurði Óskar hvernig væri að fylgjast með syni sínum á stærsta sviðinu í félagsfótboltanum.

Óskar Hrafn Þorvaldsson með Orri Steinni syni sínum eftir Evrópuleik FCK og Blika á Kópavogsvelli í sumar.Vísir/Hulda Margrét

Er í aftursætinu en konan sér um strákinn

„Það er bara mjög skemmtilegt. Konan fer út og fylgir honum þétt. Ég er þarna einhvers staðar í aftursætinu að horfa á hann í sjónvarpinu,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson en Svava hitt hann á blaðamannafundi fyrir Evrópuleik Blika á Laugardalsvellinum í dag.

„Þetta er frábær og mikil reynsla. Hann er búinn að upplifa tvo ólíka hluti í þessum tveimur leikjum sem þeir hafa spilað. Honum var bæði skipt inn á og tekinn út af í Tyrklandi og kemur svo inn á þegar tíu mínútur eru eftir í gær (fyrrakvöld á móti Bayern). Þetta er frábær reynsla fyrir hann sem ungan mann sem er að byrja að láta til sín taka í öflugu liði eins og FCK. Ég er mjög stoltur af honum,“ sagði Óskar Hrafn.

Orri Óskarsson í leik með FC KaupmannahöfnGetty/Lars Ronbog

Orri var varamaður í fyrsta leiknum en var síðan tekinn aftur út af fyrir varnarmann þegar FCK missti mann af velli með rautt spjald. Var erfitt fyrir hann að vera tekinn út af í fyrsta leiknum eftir að hafa verið svo stuttan tíma inn á vellinum?

„Nei, nei. Hann er með gott fólk í kringum sig og áttar sig alveg á því að þetta var ekki hans. Auðvitað fylgir þessu einhver skömm, það er ákveðin niðurlæging í því að vera skipt inn á og svo tekin út af aftur. Það er aldrei hægt að segja við þig að það sé þessi ástæða eða hin,“ sagði Óskar Hrafn.

Hefur staðið mjög sterkur upp úr þessari reynslu

„Þú upplifir þig eins og þú sért aðeins niðurlægður. Við foreldrarnir hans lögðum áherslu á það við hann: Ekki láta skömmina festast á þér. Láttu hana detta af þér í jörðina og stígðu yfir hana. Þetta er engin skömm ekki nema þú gerir það að skömm. Mér finnst hann hafa staðið mjög sterkur upp úr þessari reynslu,“ sagði Óskar Hrafn.

Orri Óskarsson lék sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir A-landsliðið á dögunum.Vísir/Hulda Margrét

„Svo þegar hann horfir til baka yfir þetta tímabil þá er þetta einn af þessum hlutum sem hjálpa honum að móta hann sem fótboltamann og sem karakter. Eins og sárt og það var á þeim tímapunkti sem það gerðist þá snýst það síðan um það hvernig þú lítur á það og horfir á það í baksýnisspeglinum,“ sagði Óskar Hrafn.

Óskar Hrafn er mjög hrifinn af FCK og hrósar liðinu í viðtalinu. Næsti mótherji danska liðsins í Meistaradeildinni er síðan Manchester United. Með hvaða liði heldur Orri í ensku úrvalsdeildinni?

Orri mætir næsti liðinu sem hann heldur með

„Hann heldur með United þannig að hann er að fara á Old Trafford. Það þýðir ekkert fyrir hann að fara sem stuðningsmaður. Hann verður að fara sem leikmaður. Þetta er verkefni sem þarf að vinna,“ sagði Óskar Hrafn.

Anthony Martial eftir leik með Manchester United á Old Trafford.Getty/Ash Donelon

Óskar talar einnig um þá staðreynd að geta ekki farið á völlinn til að sjá strákinn sinn spila þessa stóru leiki.

„Ég get ekki verið að væla yfir því enda sjálfur í stórkostlegu verkefni með mínum leikmönnum og mínu félagi. Það væri mjög skrítið ef ég væri að gráta í koddann heima yfir því,“ sagði Óskar Hrafn.

„Þú getur ekki fengið allt í lífinu. Það væri frábært að geta blandað þessu saman en ég myndi frekar vilja sleppa því að sjá leikina hans. Ég vil vera frekar sjálfur vera að stýra Breiðabliki í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar heldur en að vera mættur á Parken að horfa á FCK á móti Bayern á þriðjudagskvöldi. Það er ljóst,“ sagði Óskar Hrafn.

Það má horfa á allt viðtalið hér fyrir neðan.

Klippa: Óskar Hrafn um Meistaradeildarævintýri sonarins



Fleiri fréttir

Sjá meira


×