Innlent

Gekkst við „bossa­partýi“ á leik­skóla

Jón Þór Stefánsson skrifar
Brotin áttu sér stað við leikskóla sumarið 2022. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.
Brotin áttu sér stað við leikskóla sumarið 2022. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Ungur karlmaður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot og kynferðislega áreitni gegn barni Ákvörðun um refsingu mannsins hefur verið frestað, og mun falla niður að fimm árum liðnum, en honum var gert að greiða þremur börnum miskabætur.

Samkvæmt heimildum fréttastofu áttu brotin sér stað við leikskóla í Kópavogi. Þau áttu sér stað sumarið 2022.

Maðurinn var ákærður fyrir að fá þrjú börn til að gyrða niður um sig og sýna á sér rassinn og gyrða niður um sjálfan sig og sýna börnunum rassinn á sér. Þetta hafi verið nefnt „bossapartý“. Í ákæru segir að maðurinn hafi með þessu sært blygðunarsemi barnanna og sýnt þeim ósiðlegt athæfi.

Hann var einnig ákærður fyrir kynferðislega áreitni gegn sama barninu tvisvar. Í fyrra skiptið með því að nudda rassinn á barninu utanklæða og í seinna skiptið með því að fara innundir nærbuxur barnsins og káfa á kynfærum þess.

Maðurinn játaði sök afdráttarlaust. Fram kom að hann hefur leitað sér aðstoðar í kjölfar brota sinna og þá segir að hann iðrist gjörða sinna. Hann er með hreinan sakaferil að baki. Í dómi segir að öll þau atriði horfi til refsimildunar.

Með vísan til ungs aldurs mannsins og öllum atvikum málsins var ákveðið að ákvörðun um refsingu yrði frestað. Hún mun síðan falla niður að fimm árum liðnum.

Foreldrar barnanna þriggja kröfðust miskabóta. Ein þeirra hljóðaði upp á tvær og hálfa milljón króna, en hinar tvær voru báðar upp á eina og hálfa milljón. Maðurinn gekkst við bótaskyldu en mótmælti fjárhæðunum.

Í dómnum segir að ekki verði ráðið af gögnum málsins að atvikið hafi valdið börnunum varanlegum miska. Því hefur manninum verið gert að greiða tveimur börnunum 50 þúsund krónur hvoru um sig. Og þriðja barninu 200 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×