Fótbolti

Hojlund sá yngsti síðan Haaland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Hojlund fagnar seinna marki sínu fyrir Manchester United á Old Trafford í gærkvöldi.
Rasmus Hojlund fagnar seinna marki sínu fyrir Manchester United á Old Trafford í gærkvöldi. EPA-EFE/PETER POWELL

Það er ekki nóg með að nöfnin þeirra séu lík, þeir komi báðir frá Norðurlöndum og spili sem framherjar hjá Manchester liði, þá eru þeir farnir að elta afrek hvors annars.

Rasmus Højlund skoraði tvö mörk fyrir Manchester United í Meistaradeildinni í gær sem dugðu þó ekki til sigurs á móti tyrkneska félaginu Galatasaray þar sem leikurinn tapaðist 2-3.

United hefur reyndar tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í Meistaradeildinni en danski framherjinn hefur skorað í báðum leikjunum.

Með því varð hann yngsti leikmaðurinn til að skora í fyrstu tveimur Meistaradeildarleikjum sínum síðan að Erling Braut Haaland gerði það með Red Bull Salzburg haustið 2019.

Hojlund var aðeins 20 ára og 241 dags gamall á Old Trafford í gærkvöldi en Haaland var 19 ára og 73 daga þegar hann náði því.

Haaland skoraði í fimm fyrstu leikjum sínum í Meistaradeildinni, samtals átta mörk, þar af skoraði hann þrennu á móti Genk og tvö mörk á móti Napoli.

Hojlund hefur ekki náð að skora löglegt mark í fjórum leikjum og á fyrstu 267 mínútum sínum í ensku úrvalsdeildinni en tvö marka hans hafa verið dæmd af. Hann finnur aftur á móti netmöskvana í Evrópuleikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×