Fótbolti

Þrumufleygur Valverde tryggði Madrídingum sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Federico Valverde skýtur í átt að marki Napoli.
Federico Valverde skýtur í átt að marki Napoli. Francesco Pecoraro/Getty Images

Real Madrid vann ótrúlegan 3-2 útisigur er liðið heimsótti Napoli í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Þrátt fyrir að sigurmarkið sé skráð sem sjálfsmark er líklega hægt að segja að Federico Valverde sé hetja Madrídinga.

Leo Ostigard kom heimamönnum í Napoli yfir á 19. mínútu áður en Vinicius Junior jafnaði metin fyrir Real Madrid átta mínútum síðar eftir stoðsendingu frá Jude Bellingham.

Bellingham var svo sjálfur á ferðinni á 34. mínútu þegar hann kom gestunum yfir og sá til þess að liðið fór með 2-1 forystu inn í hálfleikshléið.

Heimamenn fengu hins vegar vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik eftir að Nacho Fernandez handlék knöttinn innan vítateigs og Piotr Zielinsk jafnaði metin fyrir Napoli.

Það var svo ekki fyrr en á 78. mínútu að Madrídingar fundu loksins sigurmarkið þegar þrumufleygur Federico Valverde hafnaði í þverslánni og fór þaðan í bakið á Alex Meret og í netið. Niðurstaðan því 3-2 útisigur Real Madrid sem enn er með fullt hús stig eftir tvær umferðir í C-riðli, en Napoli situr í öðru sæti riðilsins með þrjú stig.

Á sama tíma vann Inter góðan 1-0 sigur gegn Benfica eftir mark frá Marcus Thuram, en PSV og Sevilla gerðu 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×