Icardi hetjan er Galatasaray lagði Manchester United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mauro Icardi tryggði Galatasaray dramatískan sigur gegn Manchester United.
Mauro Icardi tryggði Galatasaray dramatískan sigur gegn Manchester United. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Mauro Icardi skoraði sigurmark Galatasaray er tyrkneska liðið gerði sér ferð á Old Trafford og vann virkilega sterkan 2-3 sigur gegn Manchester United í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Það voru þó heimamenn í Manchester United sem skoruðu fyrsta markið þegar Rasmus Højlund kom liðinu í forystu á 17. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Marcus Rashford, en Wilfried Zaha jafnaði metin fyrir gestina sex mínútum síðar og staðan var því 1-1 í hálfleik.

Rasmus Højlund var svo aftur á ferðinni á 67. mínútu þegar hann kom heimamönnum í forystu á ný. Aftur voru gestirnir þó fljótir að jafna og aðeins fjórum mínútum síðar var Kerem Akturkoglu búinn að jafna metin.

Tyrknesku gestirnir fengu svo dæmda vítaspyrnu á 75. mínútu þegar Andre Onana, markvörður Manchester United, kom liðsfélögum sínum í vandræði. Slök sending hans út úr teignum neyddi Casemiro í tæklingu sem endaði með því að vítaspyrna var dæmd og Casemiro fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Mauro Icardi fór á punktinn, en spyrna hans framhjá markinu og heimamenn í United því enn inni í leiknum. Icardi fór þó úr því að vera skúrkur yfir í að vera hetja er hann slapp einn í gegn þremur mínútum síðar, vippaði snyrtilega yfir Onana í markinu og tryggði Galatasaray magnaðan sigur.

Galatasaray er nú með fjögur stig eftir tvær umferðir í A-riðli, líkt og Bayern München, en Manchester United er enn án stiga á botni riðilsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira