Fótbolti

Beta hættir hjá Kristian­stad eftir nærri fimm­tán ár í starfi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir mun ekki stýra Kristianstad á næstu leiktíð.
Elísabet Gunnarsdóttir mun ekki stýra Kristianstad á næstu leiktíð. Twitter@_OBOSDamallsv

Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir, nær alltaf kölluð Beta, mun láta af störfum sem þjálfari sænska efstu deildarliðsins Kristianstad þegar yfirstandandi leiktíð lýkur. Hún hefur starfað fyrir félagið undanfarin 15 ár eða svo.

Félagið gaf út fréttatilkynningu fyrr í dag þess efnis að ákvörðun hefði verið tekin og að núverandi tímabil sé það síðasta sem Elísabet stýrir liðinu.

Eftir að gera góða hluti með Val hér á landi hélt Elísabet til Svíþjóðar í janúar árið 2009. Hefur hún allar götur síðan stýrt Kristianstad og gert magnaða hluti með liðið. Félagið hefur undanfarin ár verið mikið Íslendingalið en leikmenn á borð við Sif Atladóttur, Sveindísi Jane Jónsdóttur, Hlín Eiríksdóttur og Amöndu Andradóttur hafa spilað með félaginu.

„Fyrst og fremst vil ég þakka Kristianstad DFF. Félagið og borgin hafa verið frábær reynsla í lífi mínu,“ sagði Elísabet á vef félagsins.

Elísabet segist hafa verið heppin undanfarin 15 ár.

„Ég fékk tækifæri til að mæta í vinnuna á hverjum degi undanfarin fimmtán ár með fólki sem ég get kallað vini mína svo lengi sem ég lifi. Við höfum öll notið þess, bæði í mótlæti sem og velgengni.“

„Þó komið sé að endalokum hjá mér sem þjálfara liðsins þá lýkur ekki sambandi mínu við félagið, það mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.“

„Við erum hins vegar ekki búin enn, við spilum síðustu fimm umferðirnar saman. Munið að trúin getur fært fjöll og það eru enn 15 stig í pottinum. Við þurfum stuðning bæjarins til að hjálpa okkur að berjast um verðlaun, það er vel mögulegt.“

Beta fundaði með Knattspyrnusambandi Íslands þegar sambandið leitaði að A-landsliðsþjálfara kvenna árið 2021. Á endanum gekk það ekki upp þar sem hún var samningsbundin Kristianstad. Tók Þorsteinn Halldórsson við þjálfun liðsins og er samningsbundinn til ársins 2026.

Sem stendur er Kristianstad í 6. sæti sænsku efstu deildar með 39 stig, sex stigum minna en Linköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×