Fótbolti

Fyrsta mark Ísaks í sænsku deildinni í jafn­tefli Norr­köping

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ísak Andri skoraði sitt fyrsta mark fyrir Norrköping í dag.
Ísak Andri skoraði sitt fyrsta mark fyrir Norrköping í dag. Twittersíða IFK Norrköping

Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði fyrir Norrköping sem gerði jafntefli í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Þetta er fyrsta mark Ísaks Andra fyrir félagið síðan hann kom frá Stjörnunni í sumar.

Ísak Andri var keyptur af Norrköping í sumar og bættist þá í hóp Íslendinga sem þar voru fyrir. Hann hefur aðallega verið að koma inn af varamannabekknum í leikjum liðsins en fékk tækifæri í byrjunarliðinu í dag og var ekki lengi að nýta sér það.

Hann skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu áður en Carl Björk tvöfaldaði forystu Norrköping tíu mínútum síðar.

Heimamenn í Brommapojkarna tókst að minnka muninn í síðari hálfleiknum og tókst síðan að jafna metin í uppbótartíma. Svekkjandi niðurstaða fyrir Íslendingaliðið en Arnór Ingvi Traustason var einnig í byrjunarliði Norrköping í dag og Ari Freyr Skúlason kom inn sem varamaður þegar um stundarfjórðungur var eftir.

Fyrr í dag lagði Malmö FF lið Degerfors á útivelli 2-1. Daníel Tristan Guðjohnsen var ekki í leikmannahópi Malmö FF en hann leikur með unglingaliði félagsins og hefur í nokkur skipti verið í leikmannahópi aðalliðsins á tímabilinu.

Malmö FF er í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn en Norrköping í 5. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×