Fótbolti

Segist aldrei hafa getað stillt upp sínu besta byrjunarliði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag og lærisveinar hans í Manchester United eiga erfitt verkefni fyrir hönsum gegn Bayern München í kvöld.
Erik ten Hag og lærisveinar hans í Manchester United eiga erfitt verkefni fyrir hönsum gegn Bayern München í kvöld. Michael Regan/Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að langur meiðslaliðsti hafi gert það að verkum að hann hafi aldrei hafa getað stillt upp sínu besta byrjunarliði.

United sækir Bayern München heim í Meistaradeild Evrópu í kvöld, en liðið er án tólf aðalliðsleikmanna sem flestir eru frá vegna meiðsla. Þar á meðal eru Raphael Varane, Mason Mount og Harry Maguire, en enginn þeirra ferðaðist með liðinu til München í vikunni.

„Það er alltaf eitthvað, en við verðum bara að finna lausnir á því,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Ég held að ég hafi aldrei stillt upp okkar besta byrjunarliði, en svona er fótboltinn. Þú verður að finna lausnir. Ég elska að vera í svona stöðu þar sem þú þarft að vita hvað þú átt að gera og einbeita þér að verkefninu.“

Þá eru þeir Antony og Jadon Sancho ekki með liðinu af öðrum ástæðum en vegna meiðsla. Antony var á dögunum sakaður um heimilisofbeldi í garð kærustu sinnar og Sancho hefur ekki æft með liðinu undanfarið eftir að honum og Ten Hag lenti saman.

Gengi Manchester United á tímabilinu hefur ekki verið upp á marga fiska til þessa og liðið situr í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sex stig eftir fimm umferðir. United á því erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld þegar liðið heimsækir þýska stórveldið Bayern München í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Leikur Bayern München og Manchester United hefst klukkan 19:00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×