Erlent

Framhjáhald og barn í Bandaríkjunum orsaki fjarveru ráðherrans

Jón Þór Stefánsson skrifar
Qin Gang gengdi embætti utanríkisráðherra í sjö mánuði. Ástæðan fyrir brotthvarfi hans er sögð vera heilsufarsvandamál
Qin Gang gengdi embætti utanríkisráðherra í sjö mánuði. Ástæðan fyrir brotthvarfi hans er sögð vera heilsufarsvandamál EPA

Ástæða þess að Qin Gang, fyrrverandi utanríkisráðherra Kína, var sviptur embætti í júlí á þessu ári er sögð vera framhjáhald hans. Hann er sagður eiga barn í Bandaríkjunum með konu, sem er ekki eiginkona hans.

Gang gegndi embætti sínu í sjö mánuði, þangað til að hann hvarf skyndilega af sjónarsviðinu í sumar. Mánuði eftir hvarfið var hann sviptur embætti. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu var því haldið fram að það væri af heilsufarslegum ástæðum. 

Framhjáhaldið á að hafa staðið yfir allan tíma hans í embætti. Áður en Gang varð utanríkisráðherra var hann diplómati í Washington, en talið er mögulegt að umrætt framhjáhald hafi hafist þegar hann var í því embætti.

The Wall Street Journal fjallar um málið, en í frétt miðilsins segir að háttsettum kínverskum ráðamönnum hafi verið greint frá brotthvarfi ráðherrans á fundi í síðasta mánuði. Þau hafi einnig verið upplýst um að framhjáhald Gang hafi komið í ljós við rannsókn Kínverska kommúnistaflokksins.

Þeim hafi verið tilkynnt að ástæða brotthvarfsins væru „lífstílsvandræði“, sem Wall Street Journal fullyrðir að sé algengt veigrunarorð innan kommúnistaflokksins yfir kynlífsskandala.

Þessum ráðamönnum hafi einnig verið tilkynnt að Gang hafi stundað framhjáhald sem hafi orðið til þess að hann eignaðist barn í Bandaríkjunum. Þau fengu hvorki að vita nafn móðurinnar né barnsins.

Rannsókn flokksins heldur áfram, en nú er að mestu skoðað hvort hegðun Gang hafi ógnað þjóðaröryggi Kína. Ráðherrann fyrrverandi er sagður samstarfsfús í þeirri rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×