Innlent

Búa í gömlum olíutanki á Rifi með stórglæsilegu útsýni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Olíutankurinn er einstaklega fallegur og á skemmtilegum stað á Rifi hjá þeim Þóri og Hildigunni.
Olíutankurinn er einstaklega fallegur og á skemmtilegum stað á Rifi hjá þeim Þóri og Hildigunni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þau eru ánægð hjónin á Rifi í Snæfellsbæ, sem búa þar í gömlu olíutanki með stórkostlegt útsýni úr tankinum á Snæfellsjökul og út á sjó.

Í gömlum Olíutanki frá Skeljungi búa þau Þórir Gunnarsson, matreiðslumaður og Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt. Þau eru alsæl í íbúðarhúsi sínu í tankinum.

„Þetta er flottasta staðsetning, sem til er. Ég held allavega á Íslandi og jafnvel á jörðinni. Við héldum reyndar fyrst að við yrðum alltaf glápandi á Snæfellsjökul því við höfum bæði haldið mikið upp á hann en það er sjórinn sem heillar algjörlega, hann er alveg síbreytilegt listaverk,” segir Hildigunnur.

Olíutankurinn kom á Rif upp úr 1960 og þjónaði meðal annars hafnarsvæðinu. Neðri hæðin hjá Þóri og Hildigunni er rétt tæpir 100 fermetrar og efri hæðin er um 80 fermetrar.

En hvernig er að búa í olíutanki?

„Dásamlegt, algjör draumur,” segir Þórir og Hildigunnur bættir við.

„Húsið inn í tankinum stendur á fjórum stálsúlum og hangir svo í tankinum og þá er ekki hægt að nota sömu byggingarefni og maður notar í venjulegu timburhúsi eða steinhúsi.”

„Maður er ekki heldur sendur út í horn, þú ert ekki hornreka hér,” segir Þórir skellihlæjandi.

HildiGunnur og Þórir eru svo stolt og ánægð með það að búa í olíutanknum. Bæði segja þau að útsýnið sér stórkostlegt úr tanknum en að það sé sjórinn sem heilli allra mest þó það sé alltaf líka gaman að horfa til Snæfellsjökuls.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvernig sjáið þið framtíð ykkar hérna í olíutanknum?

„Að búa hér á meðan við getum gengið stiga svo verðum við bara að meta stöðuna. Það er ekkert mál að setja lyftu í tankinn”, segir Þórir.

En hvað er best við Snæfellsbæ?

„Fólkið, náttúran, jökulinn og sjórinn,” segir þau bæði alveg samtaka.

Mögnuð hjón á Rifi í Snæfellsbæ í olíutanknum. Svo hress og skemmtileg og alltaf brosandi.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×