Innlent

Segir þörf á 700 hjúkrunar­rýmum til við­bótar á næstu fimm­tán árum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Halla Thoroddsen er forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu.
Halla Thoroddsen er forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu.

Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu, segir gríðarmikinn vanda blasa við en þörf sé á ríflega 700 hjúkrunarrýmum til viðbótar í Reykjavík á næstu fimmtán árum. 

Frá þessu greinir Morgunblaðið en þar segir að algeng stærð á hjúkrunarheimili sé um 80 rými.

Halla segir þjóðina eldast hratt; ef mannfjöldaspár gangi eftir muni fjölga í aldurshópnum 80 til 89 ára um allt að 85 prósent til ársins 2038. Þetta þýðir að fjöldinn gæti farið úr 10.900 manns í dag í 20.100 manns.

„Þetta er sá hópur sem þarf á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda,“ segir Halla. „Hvað ætlum við að gera?“ spyr hún.

Halla segir kostnað við 100 rýma hjúkrunarheimili um það bil sex milljarða króna.

Ráðstefna um framtíð öldrunarþjónustu fer fram í Hörpu í dag en þar verður meðal annars horft til nágrannalandanna varðandi lausnir. Í Danmörku hefur til að mynda verið lögð áhersla á styrktarþjálfun í heimaþjónustu, til að draga úr þörf á frekari þjónustu.

„Ef við ætl­um að veita góða þjón­ustu við aldraða og sinna okk­ar skyld­um þannig að aldraðir fái gott ævikvöld þá þurf­um við að hugsa í lausn­um. Við get­um ekki haldið áfram á óbreyttri braut. Við þurf­um að skoða hvernig við get­um minnkað eft­ir­spurn eft­ir þjón­ustu og minnkað út­gjöld,“ segir Halla.

Markmiðið eigi að vera að efla heilsu fólks til að auka getu, virkni og þátttöku fólks í samfélaginu. Góð heilsa sé forsenda meiri lífsgæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×