Sport

Vill að fólk hætti að skrifa minningar­greinar um lið sitt í kjöl­far á­fallsins mikla

Aron Guðmundsson skrifar
Rodgers í leiknum gegn Bills í gær áður en allt endaði með ósköpum.
Rodgers í leiknum gegn Bills í gær áður en allt endaði með ósköpum. Vísir/Getty

Þjálfari NFL-deildar liðsins New York Jets biður fólk vin­sam­legast um að hætta að skrifa minningar­greinar um lið sitt nú þegar að ljóst er að aðalleik­stjórnandi Jets verður frá út tíma­bilið.

Í gær var það stað­fest að hinn 39 ára gamli Aaron Rod­gers, sem meiddist í sínum fyrsta leik fyrir lið New York Jets, hefði slitið hásin og yrði frá út tíma­bilið. Í kjöl­farið hefur trú veð­banka á góðu gengi Jets á yfir­standandi tíma­bili fjarað út en Robert Saleh, þjálfari Jets, segir of snemmt að af­skrifa liðið.

„Ég veit ekki af hverju fólk hefur verið að rita minningar­greinar um okkur,“ sagði Saleh við blaða­menn ytra í gegnum Zoom sam­skipta­for­ritið.

Robert Saleh, þjálfari New York JetsVísir/Getty

Í Rod­gers hafa þeir misst sinn reynslu­mesta leik­mann sem hefur í fjór­gang verið valinn verð­mætasti leik­maður NFL-deildarinnar og einu sinni orðið Super Bowl meistari.

Fjar­vera hans út tíma­bilið, og mögu­leg enda­lok á ferli hans, hafa hrundið af stað orð­rómum um það hvaða hring­ekja fari nú í gang hjá Jets en Saleh reyndi sitt allra besta að kveða þá niður.

Zach Wil­son er nú fyrsta val Jets í leik­stjórnandastöðuna en búist er við því að Jets sæki einnig reynslu­meiri leik­stjórnanda.

Mikil ábyrgð verður lögð á herðar hins reynslulitla Zach Wilson, sem þarf að stíga upp í fjarveru RodgersVísir/Getty

„Ég vil að það sé alveg ljóst að Zach er okkar leik­stjórnandi og við höfum mikla trú á honum,“ sagði Saleh um leik­stjórnandastöðu Jets. „Þetta er liðið hans Zach og við höldum tryggð við hann.“

Zach Wil­son átti erfitt upp­dráttar á síðasta tíma­bili og mun á sunnu­daginn kemur byrja sinn 23 leik á NFL-ferlinum.

Rodgers þurfi að svara fyrir spurningar um framtíð sína

Robert Saleh var einnig spurður út í fram­tíð Aaron Rod­gers en vildi lítið láta draga sig í ein­hverjar spekúla­sjónir.

„Eins og þið getið rétt í­myndað ykkur þá er hann niður­brotinn núna. Ég mun leyfa honum að svara þessum spurningum um fram­tíð hans. “

Hvað tekur við hjá Aaron Rodgers? Í það minnsta endurhæfing og svo verður staðan tekin. 

„Það er sam­tal sem mun þurfa að eiga sér stað á öðrum degi. Eftir allt það sem hann hefur lagt í þetta, þá er hann að sjálf­sögðu von­svikinn núna.“

Hann vill hins vegar hafa Rod­gers eins ná­lægt Jets liðinu og hann getur.

NFL

Tengdar fréttir

Tíma­bilinu lokið hjá Rod­gers: Sleit hásin gegn Bills

Aaron Rod­gers, leik­stjórnandi NFL liðsins New York Jets, sleit hásin í fyrsta leik liðsins á yfir­standandi tíma­bili gegn Buffa­lo Bills í nótt og verður frá út tíma­bilið. Þetta herma heimildir ESPN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×