Erlent

Segir mála­miðlun ó­mögu­lega og að loka­mark­miðið sé tortíming Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Oleksii Reznikov ávarpar kollega sína í greininni og hvetur þá til að styðja við eftirmann sinn.
Oleksii Reznikov ávarpar kollega sína í greininni og hvetur þá til að styðja við eftirmann sinn. Getty/Thomas Lohnes

Oleksii Reznikov, fyrrverandi varnarmálaráðherra Úkraínu, hefur hvatt til samstöðu gegn Rússlandi til að bjarga heimsbyggðinni frá þriðju heimsstyrjöldinni. Hann segir lokamarkmið Rússa að útrýma Úkraínu.

Guardian birti aðsenda grein Reznikov í morgun en hann lét af embætti á dögunum.

Reznikov segir Rússa ekki aðeins hafa ráðist gegn einu sjálfstæðu Evrópuríki heldur alheimsreglunni; alþjóðalögum og öryggis- og hjálparstofnunum. „Hvort hinum siðmenntaða heimi tekst að forðast þriðju heimsstyrjöldina veltur á því hvernig aðgerðum Rússa verður svarað og hvernig stríðinu í Úkraínu lýkur.“

Varnarmálaráðherrann fyrrverandi segir að Vladimir Pútín Rússlandsforseti verði ekki stöðvaður með því að láta Rússlandi eftir hluta Úkraínu. Nefnir hann eftirgjöf Súdetalands til  Hitlers í seinni heimstyrjöldinni í þessu samhengi.

Málamiðlun nú yrði aðeins til þess að gefa Rússum tækifæri til að ná vopnum sínum að nýju.

„Rússland viðurkennir ekki tilvist Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar; markmiðið er útrýming Úkraínu sem ríkis og aðlögun úkraínsku þjóðarinnar,“ segir Reznikov. Þá muni Rússar ekki láta sér nægja að ná Úkraínu á sitt vald, heldur muni þeir halda áfram með óumflýjanlegum stríðsrekstri í Austur-Evrópu.

Reznikov segir að Rússar verði að sæta ábyrgð vegna glæpa sinna. Þá sé sigur Úkraínu ekki aðeins draumur heldur raunveruleiki. Sigur Úkraínu yrði sigur alþjóðlegra laga og reglu og sönnun þess að ríki geti ekki lengur freistað þess að breyta landamærum með valdi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×