Handbolti

„Gott að ná að spila svona mikið“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Alexander Petersson skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld.
Alexander Petersson skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld. Vísir/Pawel

Alexander Petersson spilaði rúman hálftíma og skoraði þrjú mörk þegar hann spilaði fyrsta deildarleik sinn fyrir Val. Alexander sagði að sigur Valsliðsins gegn Víkingi hefði getað verið stærri. 

„Það var mjög gott að ná að spila rúmar 30 mínútur í þessum leik og tilfinningin var mjög góð. Ég var mjög spenntur í gærkvöldi og í allan dag að komast inn á völlinn. Mér líður afar vel í þessu Valsliði og þetta var mjög skemmtilegt,“ sagði Alexander Petersson sem spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild hérlendis í 20 ár þegar Valur lagði Víking að velli í fyrstu umferð Olísdeildarinnar í kvöld.

Alexander sýndi lipra takta. VísirPawel

„Við gerðum nóg í þessum leik en mér fannst að sigurinn hefði getað orðið stærri. Við þurfum að spila mun betur ef við ætlum að ná í sigur á móti FH í næstu umferð. Þetta var hins vegar fín upphitun fyrir þann leik. Við náðum í sigur og það er það sem skiptir máli,“ sagði þessi 43 ára gamli leikmaður. 

„Það verður gaman að mæta FH. Þeir eru með sterkt lið, lítið breytt lið frá því í fyrra og búnir að bæta við Aroni Pálmarssyni sem bætir liðið augljóslega mjög mikið. Við erum mjög spenntir fyrir því að taka á móti þeim hérna í Origo-höllina,“ sagði hann um næsta verkefni Valsliðsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×