Handbolti

Silfur­drengir sam­einaðir í Val: „Ég hlakka til eins og krakki að komast á stórmót“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alexander Petersson leikur með Val í Olís-deildinni í vetur.
Alexander Petersson leikur með Val í Olís-deildinni í vetur. Vísir

Alexander Petersson er spenntur fyrir komandi tímabili í Olís-deild karla í handknattleik. Tuttugu ár eru síðan Alexander lék síðast hér á landi en þessi fyrrum landsliðs- og atvinnumaður segist aldrei hafa hlaupið jafn mikið og á æfingum hjá Val. 

Flautað verður til leiks í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld en tveir fyrrum landsliðs- og atvinnumenn hafa nú snúið aftur heim. Ásamt Aroni Pálmarssyni þá er Alexander Petersson einnig mættur heim. 

Ólíkt Aroni sem er ennþá á besta aldri þá er Alexander 43 ára og var hættur í handbolta. Hann er þó spenntur fyrir því að setja á sig harpixið og spila handbolta að nýju.

„Tilfinningin er mjög skemmtileg. Ég hlakka til að komast aftur í handbolta og í úrvalsdeild á Íslandi. Það var síðast fyrir 20 árum sem ég spilaði hérna og ég hlakka til eins og krakki að komast á stórmót,“ sagði Alexander Petersson í samtali við Svövu Kristínu í Sportpakkanum á Stöð 2 í gær.

Alexander er eins og áður segir orðinn 43 ára og gæti verið pabbi einhverra í liðinu. Hvernig er sú tilfinning?

„Það er ekki langt síðan ég hætti og ég var búinn að vera að spila með strákum á þessum aldri. Ég er bara einn af þeim, ekki pabbinn. Ég er bara einn af strákunum vona ég.“

Alexander er nýkominn heim frá Þýskalandi og hefur því aðeins náð nokkrum æfingum með Val. Hann er óvanur því að þurfa að hlaupa svona mikið.

„Þetta er bara íslenskur handbolti og Valur eru þekktir fyrir að hlaupa mjög mikið. Ég hef aldrei hlaupið svona mikið á handboltaæfingu eða í leik. Svona er handbolti í dag og ég þarf bara að venjast. Ég hlakka bara til að vera í liðinu og hlaupa með,“ bætti Alexander við.

Klippa: Viðtal við Alexander Petersson

Þegar gengið var um ganga á Hlíðarenda í dag mátti sjá þónokkra silfurdrengi samankomna. Alexander að undirbúa sig fyrir æfingu ásamt Björgvini Páli Gústavssyni. Snorri Steinn Guðjónsson sá um þjálfun á yngri flokkum og Ingimundur Ingimundarson var að klára vinnu.

Alexander segist kunna vel við sig í þessum félagsskap.

„Þetta eru bara goðsagnir hérna. Þetta eru Snorri, ég, Bjöggi og svo er Óskar Bjarni alltaf hérna. Silfurstrákarnir og þetta getur ekki verið betra.“

Lengri útgáfu af viðtali Svövu við Alexander má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×