Sport

Fyrsti opinberi homminn í NFL hættur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carl Nassib lék síðast með Tampa Bay Buccaneers í NFL.
Carl Nassib lék síðast með Tampa Bay Buccaneers í NFL. getty/Thearon W. Henderson

Carl Nassib, sem var fyrsti leikmaðurinn í NFL-deildinni til að koma út úr skápnum, er hættur. Hann greindi frá þessari ákvörðun sinni í dag.

„Amerískur fótbolti hefur gefið mér meira en mig óraði fyrir. Ég get lagt hjálminn á hilluna vitandi það að ég lagði allt í sölurnar,“ sagði Nassib á Instagram.

Nassib lék sjö tímabil í NFL eftir að Cleveland Browns valdi hann í nýliðavalinu 2016. Hann lék einnig með Tampa Bay Buccaneers og Las Vegas Raiders.

Nassib verður alltaf minnst sem fyrsta leikmannsins í NFL sem kom út úr skápnum. Það gerði hann fyrir tveimur árum.

„Ég vildi bara segja að ég er hommi. Ég hef ætlað að gera þetta í nokkurn tíma en er loksins tilbúinn að koma þessu frá mér. Ég á frábært líf, bestu fjölskylduna, vinina og vinnu sem nokkur maður getur óskað sér,“ sagði Nassib þegar hann greindi frá því að hann væri samkynhneigður.

Nassib fékk góð viðbrögð við yfirlýsingunni, betri en hann hefði þorað að vona eins og hann sagði á sínum tíma.

„Ég hélt að öllum yrði sama. En það var svo góð tilfinning að finna fyrir öllum þessum stuðningi,“ sagði Nassib.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×