Handbolti

Selfyssingar sækja Svein Andra til Þýskalands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveinn Andri Sveinsson er genginn í raðir Selfyssinga.
Sveinn Andri Sveinsson er genginn í raðir Selfyssinga. Selfoss Handbolti

Handknattleiksdeild Selfoss hefur komist að samkomulagi við Svein Andra Sveinsson um að leika með liðinu á komandi tímabili í Olís-deild karla í handbolta.

Sveinn Andri kemur til liðsins frá Empor Rostock í þýsku B-deildinni þar sem hann lék á síðasta tímabili. Hann er uppalinn ÍR-ingur sem lék einnig með Aftureldingu áður en hann hélt út til Þýskalands.

Selfyssingar misstu stóra pósta úr sínu liði eftir síðasta tímabil og hafa því verið á höttunum eftir styrkingu. Guðmundur Hólmar Helgason og Ísak Gústafsson héldu báðir á önnur mið ásamt því að Atli Ævar Ingólfsson og Sölvi Svavarsson lögðu skóna á hilluna svo eitthvað sé nefnt.

„Sveinn er útispilari og getur leyst flestar stöður. Hann mun koma til með að styrkja hóp meistaraflokks karla í Olís-deildinni í vetur.

Handknattleiksdeild Selfoss er gríðarlega ánægð með að Sveinn Andri taki slaginn með Selfoss og verður spennandi að fylgjast með liðinu í vetur,“ segir í tilkynningu Selfyssinga.

Sveinn er þó ekki sá eini sem Selfyssingar hafa kynnt til leiks á síðustu dögum því Carlos Martin Santos var ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins í gær. Carlos stýrði Herði frá Ísafirði í Olís-deildinni á síðustu árum og þjálfaði liðið er það vann sér inn sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögunni fyrir síðasta tímabil.

Olís-deildin rúllar af stað á morgun, fimmtudag, með þremur leikjum. Fyrsti leikur Selfyssinga er á laugardaginn þegar liðið tekur á móti KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×